Unnur Birna Björnsdóttir, einn af flytjendum lagsins Heim til þín í fyrri undankeppni Söngvakeppni sjónvarpsins um helgina, segir að RÚV sé engan veginn fært um að sjá um beinar útsendingar þar sem tónlist er í forgrunni.
„Ef það er svona flókið að mixa 6 raddir og playback í beinni útsendingu, þá held ég að þessi júróvísjónkeppni ætti að vera í höndunum á öðrum en RÚV; eða RÚV ráði inn hljóðmann sem er vanur að mixa tónlist til að sjá um útsendingu og veit hvað hann er að gera,“ skrifar Unnur Birna í færslu á Facebook.
DV og Vísir fjalla um málið í dag.
Unnur Birna segir í samtali við Nútímann að leita þurfi lausna á þessu „margumtalaða vandamáli“.
Lagið Heim til þín eftir Júlí Heiðar Halldórsson í flutningi hans og Þórdísar Birtu Borgarsdóttir komst ekki áfram í aðalkeppnina. Júlí Heiðar tekur undir ummæli Unnar Birnu og segir í athugasemd við færsluna að hljóðblöndunin hafi verið hörmung.
Unnur Birna deilir tónlistarmyndbandinu sem gert var fyrir keppnina og síðan myndband sem sýnir atriðið í beinni útsendingu á laugardaginn. „Þetta er ekki nálægt því að vera sambærilegt. Öll listræn vinna, útsendingar og æfingar fóru beina leið í niðurfallið hjá RÚV, sömuleiðis peningarnir sem það þarf að borga okkur,“ skrifar Unnur Birna.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, viðurkennir í samtali við Vísi að það hefði mátt heyrast hærra í bakröddunum í laginu. Spurður hvernig RÚV myndi bregðast við því ef flutningur lags færi algjörlega úrskeiðis sökum tæknibilunar segir hann að ekki sé útiloka að lagið yrði endurflutt.
„Við metum hvert einasta tilvik fyrir sig. Ef við teljum að flutningur hafi verið meingallaður af okkar völdum útilokum við alls ekki svoleiðis. Þetta er keppni og við tökum hana alvarlega sem slíka,“ segir Skarphéðinn.