Verjandi Thomasar Möller Olsen, sem ákærður er fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur, vill fá svör við sjö spurningum frá bæklunarlækni og réttarmeinafræðingi vegna meðferð málsins fyrir dómstólum. Fimm spurningum er beint til réttarmeinafræðingsins og tveggja til bæklunarlækninsins.
Þetta kom fram við fyrirtöku í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Ákveðið var að fresta fyrirtökunni til 16. maí til að finna sérfræðinga til að svara spurningunum. Þetta kemur fram á mbl.is.
Nútíminn hafði samband við verjanda Thomasar sem vildi ekki gefa upp hverjar spurningarnar eru eða hvers eðlis þær eru.
Í ákæru málsins kemur fram að Thomas hafi beitt Birnu ofbeldi í bílaleigubíl og hent henni í sjó eða vatn með þeim afleiðingum að hún drukknaði. Hann er sagður hafa slegið hana ítrekað í andlit og höfuð, tekið hana kverkataki og hert kröftuglega að hálsi hennar og í framhaldinu, á óþekktum stað, varpað Birnu í sjó eða vatn. Hlaut hún ýmsa áverka við árásina og drukknaði í sjónum eða vatninu.
Birna hlaut punktblæðingar á augnlokum, táru og glæru augnlokanna og innanvert höfuðleður, þrýstingsáverka á hálsi, þar á meðal brot í vinstra efra horn skjaldkirtilsbrjósks, nefbrot og marga höggáverka í andlit og á höfuð.
Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, lagði fram viðbótargreinargerð í morgun vegna staðsetningu símanúmers Thomasar. Gögnin varða staðsetningar við notkun hans á farsímanum. Réttarmeinafræðingurinn og bæklunarlæknirinn verða dómkvaddir við næstu fyrirtöku í málinu, 16. maí.