Uppfært kl. 3.01: Guðbrandur Örn Arnarson, aðgerðarstjóri Landsbjargar á vettvangi, staðfestir í samtali við RÚV að skópar af gerðinni Dr. Martens hafi fundist við Hafnarfjarðarhöfn nærri athafnasvæði Atlantsolíu við Óseyrarbraut.
—
Svartur Dr. Martens skór fannst í Hafnarfirði rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi. Sá sem fann skóinn birti mynd af honum í hópnum Leit af Birnu Brjánsdóttur á Facebook og hafði í kjölfarið samband við lögreglu.
Birna var í klædd í svarta Dr. Martens skó þegar hún sást síðast í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt laugardags. Víðtæk leit að henni hefur staðið yfir frá því um helgina.
Sá sem fann skóinn var í hópi sem hafði leitað við Kaldársel fyrr um kvöldið en skórinn fannst ekki þar. Misskilningur um að skórinn hafi fundist þar breiddist hins vegar hratt út á samfélagsmiðlum en í fréttum fjölmiðla kom einnig fram að skórinn hafi fundist þar. Lögregla kom skilaboðum til hópsins á Facebook um að halda sig fjarri umræddum svæðum.
Nútíminn hafði samband við lögregluna í kjölfarið á því að skórinn fannst en ekki fékkst staðfest hvar hann fannst eða hvort hann tengist hvarfi Birnu. Í kjölfarið bárust fréttir af því að lögregla hafi lokað birgðastöð Atlantsolíu við Hafnarfjarðarhöfn vegna rannsóknarinnar.
Vísir greinir frá því að björgunarsveitarfólk sé mætt á vettvang og að bíll sérsveitarinnar sé einnig mættur á höfnina. Í frétt DV kemur fram að kafarar séu einnig á svæðinu.
Um 120 björgunarsveitarmenn leituðu að Birnu á svokallaðri flóttmannaleið í nágrenni við Heiðmörk í gærkvöldi. Leiðin afmarkast við Vífilsstaði og Kaldárselsveg. Ákveðið var að leita á svæðinu eftir að sendar sem náðu að nema merki frá síma Birnu aðfaranótt laugardags voru stefnugreindir.