Aðalvitnið í manndrápsmálinu á Ólafsfirði fannst látið þann 20. október á Akureyri. Þetta staðfestir systir konunnar sem var aðeins 37 ára gömul þegar hún lést. Samkvæmt lögreglunni á Norðurlandi eystra er málið til rannsóknar hjá embættinu en konan fannst látin á Akureyri. Hún átti að bera vitni í manndrápsmáli sem átti sér stað á Ólafsfirði þann 3. október á síðasta ári. Þar var eiginmaður konunnar, Tómas Waagfjörð, stunginn til bana en maður að nafni Steinþór Einarsson hefur verið ákærður vegna málsins.
Aðalmeðferð málsins á að fara fram í desember en eftir því sem komist verður næst er ekki komin nákvæm dagsetning á hana. Nútíminn hafði samband við Kolbrúnu Benediktsdóttur, varahéraðssaksóknara, sem sækir málið fyrir íslenska ríkið, til þess að kanna hvaða mögulegu áhrif andlátið hefði á málareksturinn í héraði: „Það verður í sjálfu sér bara að koma í ljós hvort og þá hvaða afleiðingar þetta hefur. Það er heimilt skv. sakamálalögum að byggja á framburði vitna hjá lögreglu ef þau geta ekki komið fyrir dóminn, sbr. 3. mgr. 111. gr. sml. Það á að sjálfsögðu við í þessu tilviki.“
Spurð hvort vitnisburður konunnar sem lést hafi verið álitinn mikilvægur að mati saksóknara þegar það kemur að því að upplýsa um aðdragandann að manndrápinu og hvað gekk á í íbúðinni þegar átökin áttu sér stað segir Kolbrún: „Það eru atriði sem verður farið yfir við málflutning og ég get ekki tjáð mig um núna.“
DV hefur fjallað ítarlega um manndrápsmálið á Ólafsfirði og greindi frá andláti konunnar í byrjun október.
Mannlíf skrifaði um andlát konunnar þann 3. nóvember síðastliðinn en þar kom fram að heimildir miðilsins hermdu að andlát hennar hafi borðið að með saknæmum hætti. Það hafi lögreglan hins vegar ekki viljað staðfesta.
Konan lætur eftir sig tvö börn.