Auglýsing

Maðurinn sem benti á að KFC eltir „11 Herbs & spices“ á Twitter sakaður um að vinna fyrir KFC

Mike Edgette var með 90 fylgjendur á Twitter þegar hann birti tíst sem komst í fréttir út um allan heim. Mike benti á að KFC eltir aðeins 11 manns á Twitter; Sex menn sem heita Herb og svo allar fimm söngkonur hljómsveitarinnar Spice Girls. Í fyrstu virðist engin rökrétt skýring á bakvið þetta en þegar rýnt er í fylgjendahópinn kemur í ljós að þarna leynist uppskriftin að kjúklingnum á KFC, sem inniheldur einmitt 11 jurtir (herbs) og krydd (spices).

Á þetta benti Mike en þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 320 þúsund manns dreift tístinu og rúmlega 716 þúsund manns líkað við það. Nokkuð góður árangur hjá manni með aðeins 90 fylgjendur, þó þeir séu reyndar orðnir 2.300 í dag (sem þrátt fyrir allt ekkert svo mikið).

KFC þakkaði fyrir sig á ansi skemmtilegan hátt. Mike fékk sendan pakka frá skyndibitarisanum sem innihélt málverk. En ekkert venjulegt málverk. KFC lét mála mynd af ofurstanum með Mike á hestbaki í einhvers konar fjallgöngu. Magnað verk

En eftir að málið komst í hámæli hafa ýmsir efast um heilindi Mike. Hefur hann verið sakaður um að leyna tengslum sínum við KFC og á Reddit hafa skapast umræður um að hann hljóti að vinna fyrir skyndibitarisann. Semsagt að þetta hafi allt verið skipulagt frá A til Ö.

Því til stuðnings bendir fólk á að hann starfi við markaðssetningu á samfélagsmiðlum, sem er rétt. Mike starfar hjá fyrirtækinu TallGrass Public Relations. Þá hefur fólk bent á að hann hafi tíst um systurfyrirtæki KFC, Taco Bell.

Mike hefur hafnað öllum tengslum við KFC og segist bara vera venjulegur gaur sem eyðir allt of miklum tíma á Twitter. Nútíminn skoðaði líka aðganginn hans og komst að því að allavega eitt tístið um Taco Bell fjallaði um hvernig hann fengi væntanlega niðurgang eftir að hafa borðað morgunmatinn á staðnum. Ekki góð auglýsing það.

Mike bendi á í viðtali við vef AdWeek að fyrirtækið sem hann starfar hjá sé ekki svo stórt að KFC sé á meðal viðskiptavina og segir vinnufélaga sinn hafa tengt fylgjendahópinn við leyniuppskrift KFC. Hann stal þó heiðrinum með tístinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing