Grænlenski karlmaðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur, segir fátt. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi í tæpar þrjár vikur vegna málsins og er liðin vika frá því að hann var yfirheyrður síðast.
Þetta kemur fram í frétt RÚV en þar er rætt við Grím Grímsson, yfirlögregluþjón.
Von er á niðurstöðum úr lífssýnarannsóknum í tengslum við mál Birnu í lok vikunnar. RÚV greindi frá því á mánudagskvöld að Birna hefði drukknað og að lík hennar hefði verið nakið þegar það fannst í fjörunni við Selvogsvita og tóku aðrir fréttamiðlar fréttina upp í kjölfarið.
Í frétt DV kemur fram að óánægja ríki innan rannsóknardeildar lögreglunnar með að greint hafi verið frá banameini hennar.