Auglýsing

Nútíminn tók saman aprílgöbb dagsins: Gáfu Brúnegg í Mosfellsbæ og United Silicon bauð upp á fjölskylduhátíð

Í dag er fyrsti dagur aprílmánaðar og þá hefur skapast sú hefð að fólk reyni að láta aðra hlaupa fyrsta apríl. Fjölmiðlar keppast gjarnan um að vera með besta gabbið og ætti því að rýna vel í fréttir dagsins í dag.

Fyrsta aprílgabbið sem vitað er um í íslenskum fjölmiðli er frá árinu 1957. Þá létu fréttamenn Ríkisútvarpsins sem að fljótaskip sigldi á Ölfusá á leið til Selfoss og sögðu frá í beinni útsendingu.

Í aprílgabbi Nútímans baðst veitingamaðurinn Ólafur Ólafsson afsökunar á því að hafa beitt blekkingum vegna sölu hlutar ríkisins í Búnaðarbankanum. Hér má sjá aprílgabb Nútímans. 

Nútíminn tók saman nokkur aprílgöbb í íslenskum fjölmiðlum í dag

Mosfellingur sagði frá því að í ljósi aðstæðna, gjaldþrots Brúneggja og þeirrar staðreyndar að illa hefur gengið að selja eggin eftir umfjöllun Kastljóss, hefði verið gripið til þess ráðs að gefa eggin í Mosfellsbæ í dag. Í fréttinni kom fram að hægt yrði að næla sér í eggjabakka á Teigi en 12 þúsund egg áttu að vera í boði.

Vísir greindi frá því að útilegumaðurinn Tryggvi Gunnar Hansen hefði dottið í lukkupottinn í gær þegar hann fann gamalt skrifborð í Góða hirðinum. Í leynihólfi í einni skúffunni var stór ávísun, stíluð á handhafa, upp á 46,5 milljóni bandaríkjadala, eða fimm milljarða íslenskra króna.

Í fréttinni sagði að það væri trúlega um að ræða peninga sem hingað til hefur verið á huldu um hvað enduðu en voru hagnaður af kaupum Ólafs Ólafssonar á Búnaðarbankanum árið 2003. Þá sagði einnig að Tryggvi ætlaði að bjóða þúsúnd Íslendingum í sólina á Tortóla á hverju ári í samstarfi við WOW air.

Kvennablaðið sagði frá því að Ólafur Ólafsson hefði ákveðið að færa íslensku þjóðinni nýtt sjúkrahús í samstarfi við félaga sinn. Í fréttinni sagði að ákvörðun Ólaf væri liður í sáttagjörð hans við íslensku þjóðina þar sem hann hefði ítrekað stolið frá íslensku þjóðinni.

Kvennablaðið lét sér ekki nægja eitt aprílgabb heldur greindi það einnig frá því að Brad Pitt væri staddur hér á landi vegna nýjustu myndar Baltasars Kormáks og kvikmyndafyrirtækis hans, RKV Studios. Í fréttinni sagði að tökur færu fram á Grindavíkurvegi og í nágrenni við Bláa lónið í dag og fram yfir helgi.

Víkurfréttir sögðu frá því að fyrirtækið United Silicon byði bæjarbúum í fjölskyldufjör við verksmiðju fyrirtækisins í Helguvík í dag. Bjóða átti upp á fjölbreytta dagskrá, meðal annars trúða, grill og tónlist.

Á heimasíðu Veitingageirans var sagt frá því að stjörnukokkurinn Gordon Ramsey væri staddur hér á landi og væri í óða önn að undirbúa opnun á nýjum veitingastað á Laugavegi 59. Í fréttinni kom fram að allir hefðu möguleika á því að starfa hjá meistaranum og hægt væri að fara í atvinnuviðtal á staðnum frá kl. 11 og 16 í dag.

mbl.is greindi frá því að búið væri að stofna svokallaðan IKEA-klúbb til að svara komu Costo til landsins. Í fréttinni kom fram að til stæði að bjóða upp á einstaklings- og fyrirtækjaaðild sem átti að kosta 1.990 kr á ári, eða á nokkuð lægra verði en Costco. Áhugasamir gátu smellt á link og skráð sig.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins lét blekkjast af gabbi mbl.is og skrifaði frétt um málið. Fréttin var þó fljótlega fjarlægð.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing