Íslenskir mannauðsstjórar nota samfélagsmiðla í meira mæli en kollegar þeirra á hinum Norðurlöndunum til að meta umsækjendur, samkvæmt nýútkominni skýrslu um stöðu og þróun mannauðsstjórnunar á Íslandi. Þetta kemur fram á mbl.is.
Skýrslan ber heitið Staða og þróun mannauðsstjórnunar á Íslandi og var kynnt í Háskólanum í Reykjavík á föstudaginn. Hún er afrakstur viðamikillar könnunar sem fór fram í vor og er hluti alþjóðlega CRANET rannsóknarverkefnisins.
Arney Einarsdóttir forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í mannauðsstjórnun við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og einn höfunda skýrslunnar segir á mbl.is að niðurstöðurnar bendi til þess að fyrirtæki hér á landi noti jafnvel slíka miðla í stað persónuleikaprófa.
Þá segir hún að hætta sé á að dregnar séu rangar ályktanir af upplýsingum á samfélagsmiðlum og að slíkar upplýsingar verði of ráðandi í ákvörðunartöku í ráðningum og lítið virðist enn vitað um forspárgildi slíks persónuleikamats út frá upplýsingum á samfélagsmiðlum.
Höfundar skýrslunnar eru Arney Einarsdóttir, lektor við viðskiptadeild HR, Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptadeild HR og Ásta Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Capacent og stundakennari við viðskiptadeild HR.