Fjölmargir ferðamenn og aðrir sem hafa áhuga á landbúnaði heimsækja garðyrkjudeild Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum við Hveragerði til að skoða banana sem eru ræktaðir þar. Tonn af banönum er ræktað árlega.
Vefurinn The Modern Farmer fjallar um bananaræktunina í dag og ræðir við Elías Óskarsson á Reykjum í Ölfusi. „Fullt af fólki kemur bara til að skoða. Þetta er orðið frægt. Þau sjá ekki endilega mikið af banönum en þau eru hrifin af aðstöðunni,“ segir hann.
Um 100 bananaplöntur eru í gróðurhúsinu að Reykjum og skilar hver þeirra einum klasa á æviskeiði sínu, samkvæmt umfjöllun Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins á dögunum. Þar kemur fram að uppskeran fæst árið um hring, en strax þegar henni er náð þarf að fella plönturnar. Nýjar spretta svo upp af rótarstofni, en þumalputtareglan er sú að eitt og hálft ár líði fá því fyrsti sprotinn kemur upp úr moldinni uns bananarnir, gulir og þroskaðir, eru tíndir af plöntu.
Samkvæmt umfjöllun Modern Farmer er um tonn af banönum ræktað á Reykjum árlega. Ekki má selja bananana þannig að starfsfólk og nemar fá að borða þá.
„Við getum ekki hent þessum plöntum — þetta eru einu bananaplönturnar á Íslandi!“ segir Elías. „Þetta er eini staðurinn í heiminum þar sem þessi tiltekni bananastofn er til. Það mætti segja að tíminn hafi staðið í stað.“