Villimey Líf má loksins heita Villimey Líf. Þjóðskrá hefur samþykkt nafnið en 22 ár eru síðan foreldrar hennar sóttu um leyfi fyrir nafninu hjá mannanafnanefnd. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Berglind Hólm Harðardóttir, móðir Villimeyjar, heillaðist af nafninu í bókunum um Ísfólkið en afstaða mannanafnanefndar á sínum tíma var sú að nafnið hefði neikvæða merkingu. Hún fékk því nafnið Nótt María Líf á pappírunum en hefur ávallt verið kölluð Villimey.
Í viðtali í kvöldfréttum RÚV sagðist Villimey vera mjög glöð að fá nafnið samþykkt. „Ég bjóst ekki við því,“ sagði hún.
Ég verð að viðurkenna að voru tár og gleði. Manni finnst eins og maður hafi sigrað.
Samkvæmt frétt RÚV reyndi fjölskyldan þrisvar að fá ákvörðun mannanafnanefndar hnekkt, en án árangurs. „Við urðum að sætta okkur við að búa til annað nafn og kalla hana samt Villimey,“ segir Friðrik Álfur Mánason, faðir Villimeyjar, í frétt RÚV.
Í sumar birti innanríkisráðuneytið drög að frumvarpi um verulegar breytingar á mannanafnalöggjöfinni á vef sínum. Samkvæmt drögunum stendur meðal annars til að leggja niður mannanafnanefnd.