Netflix og Spotify greiða skatta á Íslandi, ólíkt því sem kom fram í tilkynningu frá FRÍSK, Félagi rétthafa í sjónvarp- og kvikmyndaiðnaði, fyrr í vikunni. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is en þar segir að báðar efnisveiturnar greiði virðisaukaskatt í gegnum íslenskan umboðsmann.
Í tilkynningu FRÍSK kom fram að 44% íslenskra heimila séu með áskrift að Netflix. Þar sagði jafnframt að Netflix og Spotify greiði engan virðisaukaskatt eða önnur opinber gjöld hér á landi og að íslenski sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðurinn greiði um 12 milljarða króna árlega til hins opinbera á meðan erlendar efnisveitur greiði ekkert.
Sjá einnig: 44 prósent heimila á Íslandi með áskrift að Netflix en risinn borgar engan virðisaukaskatt
Haft var eftir Hallgrími Kristinssyni, stjórnarformanni FRÍSK, að félagsmenn kvíði ekki samkeppni við erlendar efnisveitur.
„En slík samkeppni þarf að fara fram á jafnréttisgrundvelli. Álögur og kvaðir á innlenda aðila verða að lækka ellegar verður minna innlent efni í boði og við sitjum uppi með erlendar efnisveitur og erlent efni. Rannsóknir sýna að tæp 88% landsmanna telja mikilvægt að sýnt sé innlent sjónvarps- og kvikmyndaefni,“ sagði Hallgrímur.
Í frétt mbl.is segir að bæði Netflix og Spotify séu í efra þrepi virðisaukaskatts, eða 24%.