Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri Kvennablaðsins, segist hafa hlaupið á sig þegar fullyrt var í frétt á vefnum í gærkvöldi að búið væri að handtaka áhafnarmeðlimi Polar Nanoq. Hún harmar mistökin.
Skömmu síðar hafði RÚV eftir Grími Grímssyni yfirlögregluþjóni að enginn hafi verið handtekinn um borð í togaranum, sem hefur verið snúið við og er á leiðinni til Hafnafjarðar á ný.
Sjá einnig: Tímalína rauða bílsins í eftirlitsmyndavélum útskýrð
„Ég undirrituð ritstjóri Kvennablaðsins viðurkenni fúslega að ég hljóp á mig með fullyrðingum um að búið væri að handtaka meðlimi áhafnar Polar Nanoq í gær og uppfærði ég því fréttina skömmu síðar og leiðrétti fyrirsögn,“ segir Steinunn Ólína í færslu á vef Kvennablaðsins.
Kvennablaðið hefur engra hagsmuna að gæta af því að flytja rangar eða tilhæfulausar fréttir um málið enda er þetta eina fréttin sem Kvennablaðið hefur birt um málið og ég harma þessi mistök í fyrirsögn okkar í gær.
Ekkert hefur spurst til Birnu Brjánsdóttur frá því aðfaranótt laugardags og víðtæk leit hefur staðið yfir undanfarna sólarhringa.
Gagnrýni á fjölmiðla hefur verið áberandi á samfélagsmiðlum undanfarna sólarhringa en lögreglan hefur hins vegar þakkað fjölmiðlum fyrir gott samstarf.
Kvennablaðið hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir umrædda frétt í gærkvöldi en einnig mbl.is sem birti á svipuðum tíma frétt um ábendingu um mannslík við Hvaleyrarvatn. Ekkert var til í fréttinni en uppsprettan virðist hafa verið orðrómur á samfélagsmiðlum.
Lögreglan hefur hins vegar oftar en einu sinni séð ástæðu til að þakka fjölmiðlum fyrir samstarfið. Á blaðamannafundinum á mánudag var fjölmiðlum þakkað fyrir störf sín ásamt því að yfirmaður rannsóknar lögreglunnar sendi póst á fjölmiðla í gærkvöldi þar sem hann þakkar gott samstarf.