Þingmenn takast nú á um tillögur Sigríðar Andersen, dómmálaráðherra, um skipun dómara við Landsrétt og er sumum þeirra heitt í hamsi. Málið er það eina sem er eftir á dagskrá Alþingis fyrir sumarfrí. Tillögurnar voru afgreiddar úr stjórnskipunarnefnd síðdegis í gær eftir að meirihlutinn samþykkti hana.
Örskýring: Hvað gerði Sigríður Andersen rangt þegar hún ákvað hverjir yrðu dómarar við Landsrétt?
Forseti Alþingis áminnti Jón Þór Ólafsson, þingmann Pírata, sérstaklega þegar hann notaði orðið „fokking“ í ræðustól. „Við þurfum fokking tíma til að vinna þetta mál,“ öskraði Jón Þór. Hann baðst afsökunar á orðavalinu en hélt síðan áfram að öskra það sem hann hafði að segja. Jón Þór hefur ítrekað stigið í ræðustól til að ræða málið eftir að fundur hófst kl. 11 í morgun.
15 dómarar verða skipaðir við Landsrétt en 37 sóttu um þegar störfin voru auglýst. Dómnefnd fór svo yfir hæfi umsækjenda og skilaði af sér lista yfir hæfustu umsækjendur. Hún mælti með því að þeir sem raða sér í 15 efstu sætin á listanum yrðu skipaðir í embætti dómara við Landsrétt.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ákvað hins vegar að fara ekki eftir tillögum dómnefndarinnar þegar hún skilaði lista yfir þá umsækjendur sem hún vill tilnefna. Sigríður leggur til að ellefu þeirra sem dómnefndin mat hæfasta verði skipaðir dómarar en skipti fjórum út og tilnefndi nýja í þeirra stað.
Alþingi þarf að samþykkja tillögu Sigríðar svo hún nái í gegn. Ef tillagan verður samþykkt hyggst þingflokkur Pírata leggja fram vantrauststillögu á Sigríði Andersen.