Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, lætur Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, heyra það í pistli sem birtist á vef Kjarnans í morgun. Ásmundur sakaði Kjarnann, Stundina og RÚV um einelti í kjölfar umfjöllunar um ummæli hans á Alþingi í vikunni þegar hann sagði SS-sveit, sveit sérfræðinga að sunnan, koma alltaf í veg fyrir að eitthvað gerist á Vestfjörðum.
Þórður segir að ummæli Ásmundar hafi verið fréttnæm fyrir tvennar sakir. Vegna þess að hann ásakaði óskilgreindan hóp um að standa í vegi fyrir framförum á ákveðnum landshluta og vegna þess að þau hafi verið klaufaleg og búið til vafasöm hugrenningatengsl.
Hann bendir á að í frétt Kjarnans um málið hafi verið sérstaklega tekið fram að Ásmundur hafi ekki átt við sérsveit nasista en hann hafi sjálfur valið að notast við orðin SS-sveit í málflutningi sínum.
„En Ásmundur skautar yfir þetta í eigin fórnarlambavæðingu. Það að fjölmiðill segi frétt af málflutningi þingmanns í pontu Alþingis er bara einelti að hans mati. Það er ekki honum að kenna hvað hann segir, heldur þeim sem segja frá því,“ skrifar Þórður.
Þórður fer í pistlinum yfir fleiri umdeild mál sem Ásmundur hefur verið viðriðinn og segir að ummæli hans í gegnum tíðina sýni að Ásmundur hafi hvorki skilning á tilgangi fjölmiðla né lögum um fjölmiðla.
Við Ásmund Friðriksson er einungis þetta að segja: þeir sem bjóða sig fram til að gegna opinberum störfum verða að þola umræðu og umfjöllun um störf þeirra. Það er ekki einelti heldur aðhald.
Þórður segir þá að það sé móðgun við þá sem raunverulega verða fyrir einelti að kalla umfjöllun fjölmiðla um orð og gjörðir stjórnmálamanns slíkt. Pistilinn má nálgast í heild sinni á vef Kjarnans.