Siðanefnd Alþingis telur að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hafi brotið gegn siðareglum þingmanna vegna ummæla sem hún lét falla um greiðslur til Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Sjá einnig: Fjórar ástæður fyrir því að aksturspeningamálið er raunverulegur skandall
Siðanefndin hefur sent forsætisnefnd ráðgefandi álit vegna málsins en Þórhildur ætlar sjálf að krefjast þess að forsætisnefnd vísi málinu aftur til siðanefndarinnar. Ásmundur kvartaði yfir ummælum Þórhildar og flokksbróður hennar, Björns Leví Gunnarssonar, í byrjun árs.
Þórhildur lét ummælin falla í sjónvarpsþættinum Silfrinu í febrúar á síðasta ári. Hún sagði að „rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hefði dregið sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn á þessum efnum.“
Í Fréttablaðinu segir að siðanefndi telji að órökstuddar aðdróttanir af hálfu þingmanna um refsiverða háttsemi annarra þingmanna sé til þess fallið að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess. Ummælin hafi óneitanlega áhrif á traust almennings til Alþingis.
Þórhildur segist vera ósátt við niðurstöðuna í samtali við Fréttablaðið og telur hún að siðanefnd hafi ekki kannað sannleiksgildi orða hennar.