Aflífa þurfti hestinn Júpíter eftir að hann fótbrotnaði illa í Mývatnssveit um helgina. Leikmynd úr kvikmyndinni Fast 8 fauk inn í girðingu með þeim afleiðingum að Júpíter og annar hestur trylltust. Þeir hlupu stjórnlaust út í Búrfellshraun þar sem Júpíter fótbrotnaði svo illa að það þurfti að aflífa hann á staðnum.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Morgunblaðið greinir frá því að hinn hesturinn sé slasaður og að leikmyndin sem fældi hestana hafi verið eftirmynd af ísjaka.
Vonskuveður var í Mývatnssveit um helgina. Leikmynd kvikmyndarinnar fauk víða um Mývatnssveit samkvæmt Morgunblaðinu. Í blaðinu kemur fram að hætta hafi skapast í sleðahundakeppni þegar leikmynd fauk nálægt hundum og farartækjum.