Leitarfólk Landsbjargar hefur verið kallað út til að halda áfram leit að Birnu Brjánsdóttur til að fylgja eftir vísbendingum frá almenningi. Þetta kemur fram á Vísi.
Vísir greinir frá því að leitað verði áfram á hafnarsvæðinu í Hafnarfirði og á vegaslóðum á Strandaheiði. Á vef RÚV kemur fram að kafar og tveir bátar frá Landhelgisgæslunni séu einnig við leit á svæðinu.
Ekkert hefur spurst til Birnu frá því aðfaranótt laugardags og víðtæk leit hefur staðið yfir undanfarna sólarhringa. Í morgun komu fram nýjar upplýsingar um ferði hennar aðfaranótt laugardags.
Nútíminn tók saman tímalínu
- Um klukkan fimm sést Birna yfirgefa skemmtistaðinn Húrra.
- Þaðan lá ferð hennar á Ali Baba þar sem hún keypti sér að borða. Stundin hefur birt mynd af henni inni á staðnum.
- Hún sést svo á öryggismyndavél á gangi á Austurstræti,
- Næst sýna eftirlitsmyndavélar hana ganga upp Skólavörðustíg.
- Birna beygir svo niður Bergstaðastræti og sést svo síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi.
- Klukkan 5.25 sést svo rauður Kia Rio keyra framhjá eftirlitsmyndavél við Laugaveg 31.
Nútíminn hefur einnig tekið saman tímalínu bílsins
- Bíllinn sást í eftirlitsmyndavél á Laugaveginum um það leyti sem Birna sást síðast í eftirlitsmyndavél, eða klukkan 5.25 aðfaranótt laugardags.
- Vísir greinir frá því að lögreglan hafi undir höndum upptöku af rauðum bíl, líkast til rauðum Kia Rio, sem náðist á eftirlitsmyndavél áhaldageymslu Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar klukkan 5.53 á laugardagsmorgun. Myndskeiðið sýnir hvernig bílnum er ekið skyndilega í burtu þegar ljós kviknar á eftirlitsmyndavél.
- Klukkan 5.50 kemur sími Birnu inn á símamastur við Flatahraun í Hafnarfirði en svo er slökkt á símanum.
- Á mbl.is kemur fram að bíllinn hafi sést á öryggismyndavélum Hafnafjarðarhafnar milli klukkan 6 og 6.30 að morgni laugardags. Þar kemur einnig fram að ljóst sé að farþegarnir í bílnum tengist Polar Nanoq.
Rannsóknin á hvarfi Birnu beinist nú meðal annars að skipverjum grænlenska togarans Polar Nanoq. Vísir greindi frá því að lögreglan hafi fengið lista yfir áhöfnina en togarinn lagði úr höfn á laugardagskvöld.
Tæknideild lögreglunnnar lagði í gær hald á rauða Kio Rio bíl í Kópavogi. Vísir hefur heimildir fyrir því að erlendir menn hafi verið með rauða Kia Rio bílinn á leigu á þeim tíma sem Birna hvarf.
Rétt fyrir miðnætti í gær fundust skór Birnu nærri tönkum Atlantsolíu við hafnarsvæðið í Hafnarfirði. Polar Nanoq hélt úr höfn á laugardagskvöld en er nú á leiðinni til Hafnafjarðar á ný.
TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli um klukkan hálftólf í dag og lenti á ný rétt eftir klukkan 14. RÚV greinir frá því að sérsveitarmenn frá lögreglunni hafi verið um borð í vélinni sem og sigmaður.
Heimildir RÚV herma að þyrlan hafi farið til móts við Polar Nanoq. Í tilkynningu frá útgerð togarans í morgun kom fram að lögregla vilji ná tali af einum eða fleiri úr áhöfn hans.