Allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út á öðrum tímanum í nótt vegna elds í Laugalækjaskóla. Eldurinn kom upp í klæðningu utan á skólanum. Talsvert rok var sem gerði slökkviliðinu erfitt fyrir en það tók rúmlega klukkustund að ráða niðurlögum eldsins. Þetta kemur fram á mbl.is
Slökkvistarfi lauk um klukkan 04:30 í morgun en ekki er vitað hvað olli eldsvoðanum. Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu í Reykjavík er líklegast að um íkveikju sé að ræða þar sem kviknaði í klæðningu utanhúss. Hann segir að það hafi verið heppilegt að fá verkefni hafi komið upp á sama tíma en þrátt fyrir það hafi þurft að kalla út aukamannskap.
Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.