Samkvæmt nýrri reglugerð um drykkjarvöruumbúðir sem á að taka gildi um næstu mánaðarmót verða öll strikamerki að vera lóðrétt, ekki lárétt.
Íslandsmarkaður er ekki stór og því er ekki líklegt að erlendir framleiðendur myndu fást til að sérmerkja þær vörur sem flytja ætti til Íslands. Því yrðu innflytjendur að endurmerkja allar flöskur með tilheyrandi kostnaði áður en vörurnar færu í hillur hér á landi.
Þetta kemur fram í frétt á vef Félags atvinnurekenda. Reglugerðin er samin í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.
Evrópusamtök áfengisframleiðanda, Spirits Europe, hafa þegar mótmælt ákvæðinu harðlega. Þau segja það skapa viðskiptahindrun, þörfin á því sé óútskýrð og önnur ríki EES séu ekki í neinum vandræðum með að leyfa hvort heldur er lárétt og lóðrétt strikamerki á drykkjarumbúðum.
Í umsögn samtakanna kemur fram að stór alþjóðlegur áfengisframleiðandi meti það svo að fyrirtækið þurfi að breyta 85% af flöskumiðum sínum til að geta selt vörur sínar til Íslands, taki reglugerðin gildi.