Auglýsing

Zúistar fengu 53 milljónir úr ríkissjóði, óvíst hvort nýr forstöðumaður endurgreiði meðlimum sóknargjöldin

Trúfélagið Zuism fékk rúmlega 53 milljónir króna úr ríkissjóði þann 9. október síðastliðinn. Þá féllst sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra á kröfu Ágústs Arnars Ágústssonar um að skrá hann sem forstöðumann trúfélagsins. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag

Fyrrverandi og núverandi forsvarsmenn trúfélags Zúista á Íslandi hafa deilt um hver eigi rétt á sóknargjöldum félagsins. Fyrrverandi forsvarsmenn höfðu lofað að endurgreiða meðlimum trúfélagsins sóknargjöldin.

Ágúst og Einar, bróðir hans, hafa verið kallaðir Kickstarter-bræður. Einar var í júní dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir fjársvik. Báðir bræðurnir voru til rannsóknar í málinu en aðeins gefin út ákæra á hendur Einari.

Í samtali við Fréttablaðið svarar Ágúst ekki hvort til standi að endurgreiða meðlimum trúfélagsins sóknargjöldin. „Verið er að vinna í hvernig sóknar­­gjöldum verður ráðstafað,“ segir hann í Fréttablaðinu.

Það er von á tilkynningu og þetta mun vonandi allt skýrast þar.

Trúfélagið Zuism fékk formlega skráningu árið 2013. Rekstrarfélag var stofnað og árið 2014 voru skráðir meðlimir í trúfélagið þrír. Samkvæmt Fjársýslu ríkisins fékk félagið greidd sóknargjöld upp 27 þúsund krónur frá ríkissjóði árið 2014.

Bræðurnir Ágúst Arnar og Einar Ágústssynir voru í forsvari fyrir trúfélagið en árið 2014 tók í gildi reglugerð um að það þurfi að lágmarki 25 meðlimi svo heimilt sé að skrá trúfélag eða lífskoðunarfélag.

Í apríl árið 2015 skoraði sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra á þá sem telja sig veita trúfélaginu Zuism forstöðu eða sitja í stjórn þess að gefa sig fram. Þar sem meðlimir í Zuism voru aðeins þrír stóð til að leggja félagið niður en enginn hafði svarað kalli sýslumanns þegar Vísir greindi frá málinu viku eftir að áskorunin var birt í Lögbirtingablaðinu.

Í nóvember árið 2015 kom svo í ljós að nýir aðilar höfðu svarað kalli sýslumannsins og tekið yfir trúfélagið. Þeir útveguðu félaginu 40 nýja meðlimi og í viðtali á Eyjunni sagði stjórnarmaðurinn Snæbjörn Guðmundsson upprunalega stofnendur hafa skorið á öll tengsl við félagið.

Ný stjórn hét því að endurgreiða sóknargjöld til meðlima og í kjölfarið varð Zuism eitt stærsta trúfélag landsins. Í dag eru skráðir meðlimir 2.845 talsins, samkvæmt vef Hagstofunnar.

Í kjölfarið sneru bræðurnir Ágúst og Einar aftur og töldu sig enn vera í forsvari fyrir rekstrarfélag Zuism. Þeir höfðuðu mál á hendur Ríkissjóði Íslands til að fá greidd sóknargjöld til félagsins, sem nýju forvarsmennirnir vildu endurgreiða meðlimum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing