Læðurnar Bríet og Ronja voru í fyrsta hópnum sem flutti inn í kisuhúsið í Keeping Up With the Kattarshians. Þær voru níu vikna gamlar þegar þær komu sér fyrir ásamt bræðrum sínum, Guðna og Stubbi og eftir að hafa búið þar eignuðust þau öll framtíðarheimili.
Elísabet Inga, útsendari Nútímans, fór í heimsókn til Bríetar og Ronju og fékk að heyra hvernig hefur gengið fyrstu vikurnar. Sjáðu myndbandið hér fyrir ofan.
Sjá einnig: Bríet og Ronja eru komnar á framtíðarheimili, sjáðu þegar þær hittu eigendur sína
Snæfríður og Ollie tóku að sér Bríeti og segja að hún sé ljúf og góð og það sé mikill leikur í henni. Katrín Ásta og fjölskylda hennar tóku Ronju að sér og sjá svo sannarlega ekki eftir því.
Bríet, Guðni, Ronja og Stubbur fundust ásamt mömmu sinni í verksmiðjuhverfi. Þeim var öllum komið í Kattholt þar sem hlúð var að þeim. Eftir að hafa dvalið þar, vaxið og dafnað fluttu systkinin í kisuhúsið.
Systkinin heilluðu heimsbyggðina upp úr skónum í krúttlegasta raunveruleikaþætti í heimi. Á eftir þeim komu systkinin Svala og Bó og síðan flutti einstæða móðirin Vanilla inn í húsið með börnin sín fimm: Gretti, Trítil, Tópas, Nóa og Nóu.
Hér er hægt að fylgjast með Keeping Up With the Kattarshians í beinni.