Um hvað snýst málið?
Um mánaðarmótin verður á ný hægt að kaupa Kók með poppinu í Smárabíói.
Hvað er búið að gerast?
Pepsi hefur verið á boðstólnum í stærstu kvikmyndahúsum landsins undanfarin ár en það vakti mikla athygli á sínum tíma þegar Kókinu var skipt út.
Þetta byrjaði árið 2011 þegar Samkeppniseftirlitið taldi að Vífilfell hafi í krafti markaðsráðandi stöðu brotið samkeppnislög með því að gera hundruð samninga við viðskiptavini um að þeir kaupi ekki aðra gosdrykki en þá sem Vífilfell framleiðir. Vífilfell var sektað 260 milljónir króna en sektin var síðar lækkuð í 80 milljónir af áfrýjunarnefnd samkeppnismála.
Í október árið 2014 staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms um að fella úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Ríkið þurfti því að endurgreiða Vífilfelli sektina.
Samkeppniseftirlitið hafði sett hömlur á samningagerð Vífilfells við verslanir og veitingastaði. Ölgerðin samdi því við kvikmyndahús, Subway og fleiri aðila um að bjóða upp á Pepsi í staðinn fyrir Kók.
Hvað gerist næst?
Fólk getur fengið sér popp og Kók í Smárabíói. Pepsíið er áfram í Sambíóunum.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um flókin mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú vilt að við örskýrum fleiri mál.