Um hvað snýst málið?
Ferðamenn lögðu undir sig neyðarskýli í Hornvík á dögunum og beittu skotvopnum sem eru bönnuð í friðlandinu ásamt því að kveikja eld í grónu landi.
Hvað er búið að gerast?
Við Höfn í Hornvík lá selur sem hafði verið skotinn og fláður að hluta. Þá voru merki um varðeld í grónu landi, mávur hafði verið skotinn og lundi veiddur.
Jón Smári Jónsson, umsjónarmaður friðlandsins, segir í samtali við RÚV að Umhverfisstofnun taki málið til alvarlegrar skoðunar og óski eftir rannsókn lögreglu á þeim brotum sem stofnunin telur að hafi verið framin.
Ferðaþjónustufyrirtækið Strandferðir flutti mennina sjóleiðis inn í Hornvík og sótti viku síðar. Í tilkynningu harmar fyrirtækið að hafa ekki tilkynnt Ísafjarðarbæ um ferðir þeirra, sem ferðaþjónustufyrirtækjum ber að gera til 15. júní.
Í tilkynningunni lýsa Strandferðir yfir megnustu skömm á aðkomunni sem blasti við þegar mennirnir voru sóttir, framkoma þeirra samræmist á engan hátt þeim gildum sem fyrirtækið vilji standa fyrir. Starfsfólk Strandferða harmar virðingarleysi mannanna gagnvart náttúru og neyðarbúnaði á staðnum.
Skotveiðimaðurinn Kristján Vídalín Óskarsson, sem er einn mannanna, segir í samtali við RÚV að málið sé stormur í vatnsglasi.
Hvað gerist næst?
Kristján Vídalín segist búast við því að þeir félagarnir verði yfirheyrðir af lögreglu og að þá komi sannleikurinn í ljós.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.