Um hvað snýst málið?
Athafnakonan Ásdís Rán birti mynd af Stefaníu Töru Þrastardóttur á Snapchat og spurði hvort það væri búið að breyta stöðlunum í Miss World. „Eða er hún bara uppfyllingarefni til að sýnast fyrir íslenska femínistann?“
Spurning vakti nokkuð hörð viðbrögð eftir að DV fjallaði um málið um helgina.
Hvað er búið að gerast?
Ungfrú Ísland fór fram fram í Hörpu á laugardaginn í síðustu viku. Ólafía Ósk Finnsdóttir var krýnd Ungfrú Ísland 2017 en Stefanía Tara var valin vinsælasta stúlkan.
Eftir að DV fjallaði um spurningu Ásdísar Ránar birti hún færslu á Facebook þar sem hún sagðist ekki vera að setja út á Stefaníu heldur spyrja spurningu um keppina. „Svarið er að það er ekki búið að breyta reglunum í erlendu keppninni sem þessar stúlkur keppast um að taka þátt í,“ sagði hún.
Þá sagðist Ásdís vera að benda á að einhverjir keppendur í Ungfrú Ísland uppfylli ekki staðla fyrir lokakeppni Miss World. „Ef það á að leyfa stærri stelpum að taka þátt, eiga þær þá ekki að hafa jafn mikla möguleika og hinar?“ spurði Ásdís.
Stefanía Tara svaraði svo Ásdísi og sagði hana ekki hafa kynnt sér reglur keppninnar alveg nógu vel, hvorki hérlendis né erlendis. „Því allar þær stúlkur sem keppa á Íslandi, hafa jafnan möguleika á því að fara fyrir hönd Íslands, út í Miss World, og hefði ég alveg getað verið sú stúlka,“ sagði hún í athugasemd undir færslu Ásdíar á Facebook.
Hvað gerist næst?
Lokakeppni Miss World fer fram í Kína laugardaginn 18. nóvember.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.