Um hvað snýst málið?
Í byrjun vikunnar kom fram að lögreglan í Vestmannaeyjum ætli ekki upplýsa fjölmiðla um tilkynnt kynferðisbrot á Þjóðhátíð í Eyjum fyrr en eftir hátíðina. Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri sagði þetta gert til að vernda brotaþola frá ytra álagi og auka líkur á góðri frásögn.
Í kjölfarið ákváðu hljómsveitirnar Retro Stefson, Sturla Atlas, Dikta, Agent Fresco, Úlfur Úlfur og rappararnir Emmsjé Gauti og GKR að hætta við að koma fram á hátíðinni „nema ef skýr stefnubreyting kemur frá bæjaryfirvöldum og lögreglustjóra og það strax,“ eins og segir í yfirlýsingu.
Hljómsveitin Quarashi hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hún ætli einnig að draga sig út af dagskrá Þjóðhátíðar í ár en sveitin ætlar að funda um málið í kvöld.
Hvað er búið að gerast?
Í Fréttablaðinu í vikunni kom fram að Páley hafi haft samband við Neyðarmóttöku Landspítalans og óskað eftir að sama verklag yrði viðhaft þar. Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri Neyðarmóttökunnar, sagðist ekki ætla að verða við beiðni lögreglustjórans.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, sagði í sömu frétt að þetta verklag verndi ekki þolendur kynferðisofbeldis. „Ég veit að flestir fagaðilar eru sammála um að það sé rétt að veita þessar upplýsingar,“ sagði hún.
Páley sendi svo frá sér yfirlýsingu þar sem kom fram að allar upplýsingar verði veittar um leið og talið er að það skaði hvorki rannsóknarhagsmuni né velferð brotaþola.
Í kjölfar yfirlýsingar listamannanna sendi Þjóðhátíðarnefnd frá sér yfirlýsingu þar sem Stígamótum og Neyðarmóttöku Landspítalans er boðið að fara yfir forvarnarstarf, gæslu og viðbragðsteymi Þjóðhátíðar í Eyjum.
Hvað gerist næst?
Hljómsveitirnar hafa ekki brugðist við yfirlýsingu Þjóðhátíðarnefndar.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.