Um hvað snýst málið?
Sam Allardyce, nýr knattspyrnustjóri Everton, ætlar að fá íþróttasálfræðing til að hjálpa Gylfa Sigurðssyni að komast í gegnum erfiðleika sem fylgja því að spila fyrir liðið.
Hvað er búið að gerast?
Gylfi Sigurðsson er dýrasti leikmaður í sögu Everton en hann var keyptur á 45 milljónir punda frá Swansea í sumar. Gylfi fór á kostum með Swansea en hefur ekki alveg sýnt sitt rétta andlit með Everton en liðið allt hefur reyndar átt erfitt uppdráttar.
Á vefnum Betri líðan er farið yfir hvað íþróttasálfræðingur gerir fyrir íþróttamenn. Þar kemur fram að sálfræðilegir þættir eins og yfirvegun, einbeiting og sjálfsöryggi skipti gífurlega miklu máli til að ná árangri í íþróttum.
„Þá er það reynsla margra að undir pressu nýtist illa eða ekki sú geta sem menn búa yfir,“ segir á vefnum en ekki er ljóst hvernig fara eigi að því að ná tökum á þessum þáttum.
Íþróttasálfræðingur notar hugaþjálfun sem skipulagðri þjálfun og markviss vinnubrögð eru nýtt. „Markmiðið er að í móti eða keppni geti góð andleg líðan tryggt að öll geta og þjálfun nýtist til fulls,“ segir á vefnum.
Annað verkefni sálfræðinga sem snýr að íþróttum er úrvinnsla vegna mótlætis eða vonbrigða. „Slík staða er óhjákvæmileg en öllu skiptir að gefa því ekki of mikið vægi. Þá glíma íþróttamenn eins og allir aðrir við ýmiskonar persónuleg vandkvæði sem trufla frammistöðu og þurfa oft aðstoð við úrlausn þeirra.“
Hvað gerist næst?
Gylfi hefur skorað tvö mörk og gefið tvær stoðsendingar í síðustu fjórum leikjum Everton, sem hefur unnið síðustu tvo leiki. Vonum að okkar maður haldi áfram að gera góða hluti.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.