Um hvað snýst málið?
Lögreglan í Vestmannaeyjum hyggst ekki upplýsa fjölmiðla um tilkynnt kynferðisbrot á Þjóðhátíð í Eyjum fyrr en eftir hátíðina. Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri segir þetta gert til að vernda brotaþola frá ytra álagi og auka líkur á góðri frásögn.
Hvað er búið að gerast?
Í Fréttablaðinu kemur fram að Páley hafi haft samband við Neyðarmóttöku Landspítalans og óskað eftir að sama verklag yrði viðhaft þar. Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri Neyðarmóttökunnar, segist í Fréttablaðinu ekki ætla að verða við beiðni lögreglustjórans.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir í sömu frétt að þetta verklag verndi ekki þolendur kynferðisofbeldis. „Ég veit að flestir fagaðilar eru sammála um að það sé rétt að veita þessar upplýsingar,“ segir hún.
Í viðtali um málið í fréttum Stöðvar 2 sagði Páley kynferðisbrot sérlega viðkvæm. „Við erum bara á svo litlu landi. Um leið og það er búið að tilkynna að það hafi orðið brot þá fer fólk að leggja saman tvo og tvo,“ sagði hún.
Flest þessara brota eiga sér stað á milli tveggja einstaklinga í lokuðum rýmum þangað sem fólk fer yfirleitt sjálfviljugt. Það er bara staðreyndin. Við erum ekki að sjá þessi brot, sem betur fer og vonandi munum við ekki sjá það og reynum að fyrirbyggja með öflugri gæslu og svona, þessi almannafærisbrot.
Hvað gerist næst?
Verslunarmannahelgin er síðustu helgina í júlí. Þangað til geturðu lagt baráttunni gegn kynferðisofbeldi lið með því að mæta í Druslugönguna á laugardaginn.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.