Málið snýst um tvennt:
- Bragi Guðbrandsson er sakaður um að hafa í starfi sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu beitt sér fyrir því að maður sem var grunaður um að misnota dætur sínar fengi að umgangast þær.
- Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra er sagður hafa vitað af málinu þegar Alþingi tilnefndi Braga til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Hvað er búið að gerast?
Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að maðurinn sem um ræðir hafi þrisvar verið tilkynntur til lögreglu:
- Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar tilkynnti hann til lögreglu árið 2014 þegar það uppgötvaðist að hann var virkur á klámsíðum þar sem hann lét í ljós áhuga á sifjaspelli.
- Árið 2015 kallaði heimilislæknir til lögreglu eftir læknisskoðun á dóttur hans en hún hafði kvartað undan verkjum í klofi.
- Meðferðaraðili tilkynnti hann til lögreglu árið 2016 eftir að vísbendingar um kynferðisbrot komu fram í viðtölum við dætur hans.
Stundin birti í dag gögn sem staðfesta að Bragi var í miklum samskiptum við föðurafa stúlknanna, sem vildi fá að hitta þær ásamt ömmu stúlknanna en hún var dauðvona.
Gögnin sýna að Bragi óskaði eftir því við starfsmann barnaverndar Hafnafjarðar að reynt yrði að tala um fyrir móður stúlknanna um að föðuramma þeirra fengi að hitta þær. Þá kemur fram að þeim hafi staðið til boða að hitta þær án þess að faðir þeirra kæmi við en þau sættu sig ekki við það. Barnaverndarnefnd Hafnafjarðar ráðlagði móðurinni að halda stúlkunum í öruggu skjóli, eins og það er orðað í umfjöllun Stundarinnar.
Ásmundur Einar mætti á fund velferðarnefndar Alþingis í morgun til að ræða mál Braga. Hann sagði að úttekt verði gerð á barnaverndarmálum í landinu og að niðurstöðu megi vænta í haust.
Hvað gerist næst?
Bragi mætir á fund nefndarinnar á miðvikudag. Hann segist í bréfi til velferðarnefndar Alþingis geta varpað nýju ljósi á málið sem kollvarpi þeirri mynd sem dregin hefur verið upp í umfjöllun Stundarinnar um málið og í kjölfar hennar.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.