Um hvað snýst málið?
Þingflokkar Samfylkingar og Pírata ætla að leggja fram vantraust á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra vegna Landsréttarmálsins.
Hvað er búið að gerast?
Sigríður Andersen hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir verklag við vinnslu tillögu Alþingis um skipan dómara við Landsrétt.
Í desember í fyrra komst Hæstiréttur að því Sigríður hafi brotið lög í málinu og á dögunum birti Stundin gögn sem sýndu að sérfræðingar þriggja ráðuneyta vöruðu Sigríði ítrekað við að verklag hennar gæti brotið í bága við stjórnsýslulög.
Smelltu hér til að lesa örskýringu um Landsréttarmálið.
Alþingi getur lýst vantrausti á ríkisstjórn eða einstaka ráðherra. Það fer þannig fram að vantrauststillaga er lögð fram og þingmenn kjósa um hana. Eðli málsins samkvæmt hafa vantrauststillögur sjaldan verið samþykktar, þar sem þær eru yfirleitt lagðar fram af minnihluta á þingi.
Ef vantrauststillaga á ráðherra í ríkisstjórn er samþykkt þarf forsætisráðherra að gera tillögu til forseta um að viðkomandi ráðherra verði leystur frá embætti. Ef tillaga um vantraust á ríkisstjórn er samþykkt þarf forsætisráðherra að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.
Hvað gerist næst?
Alþingi þarf að taka vantrauststillöguna fyrir svo hægt sé að kjósa um hana. Óvíst er hvenær það verður gert.
Atkvæðagreiðsla um vantraust á Sigríði Andersen gæti orðið spennandi þar sem tveir þingmenn Vinstri grænna styðja ekki stjórnarsáttmálann og gætu því kosið með stjórnarandstöðunni.
Ríkisstjórnin er með 35 þingmenn á móti 28 þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Ef við teljum þingmenn VG sem styðja ekki sáttmálann ekki með sem stjórnarþingmenn er þó ljóst að tveir stjórnarþingmenn í viðbót þurfa að kjósa með tillögunni, svo hún verði samþykkt.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.