Um hvað snýst málið?
Tónlistar- og fjölmiðlakonan Salka Sól Eyfeld birti eftirfarandi tíst á Twitter, þar sem hún sendi dónanum sem kleip í rassinn á henni á árshátíð Icelandair kaldar kveðjur: „Fokk you, dóni“. Tístið vakti mikla athygli og í kjölfarið stigu fleiri tónlistarmenn og skemmtikraftar fram og sögðu frá áreiti sem þeir hafa orðið fyrir þegar þeir voru að skemmta fólki.
Til mannsins sem kleip í rassinn á mér rétt áður en ég labbaði uppá svið á Iceland Air árshátíðinni í gær: fokk you dóni.
— Salka Sól Eyfeld (@salkadelasol) March 26, 2017
Hvað er búið að gerast?
Í viðtali á Vísi sagði Salka Sól að þetta hafi ekki verið í fyrsta skipti sem hún lenti í sambærilegu áreiti. Hún sagði að hún og kynsystur hennar væru margar hverjar orðnar langþreyttar á því að karlar þreifi á þeim eða klípi þær.
Margrét Erla Maack sagði í kjölfarið í viðtali í Fréttablaðinu í kjölfarið að áreitni af ýmsu tagi sé ömurlegur partur af starfi skemmtikrafta.
Bubbi Morthens steig fram á Twitter og hafði svipaða sögu að segja „Á Ferli mínum hafa konur gripið í klof mér og rassinn sagt ég ætla ríða þér kallað mig homma þegar ég sagði nei. Salka Sól skil þig svo vel,“ sagði hann á Twitter.
Þá hrósaði Þorsteinn Guðmundsson Sölku fyrir að vekja athygli á málinu. „Langflestir skemmtikraftar verða fyrir áreiti og dónaskap en konur í miklu meira mæli,“ sagði hann á Twitter.
Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 en þar sögðu tónlistarkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir og plötusnúðurinn Atli Viðar Þorsteinsson frá áreiti sem fylgir því að hafa atvinnu af því að skemmta öðrum.
Hvað gerist næst?
Dónar fara vonandi að hætta þessu.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.