Um hvað snýst málið?
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir verklag við vinnslu tillögu Alþingis um skipan dómara við Landsrétt.
Hvað er búið að gerast?
Landsréttur er nýtt millidómsstig sem var tekið upp á Íslandi um síðustu áramót. Landsréttur er sérstakur áfrýjunardómstóll fyrir allt landið sem er meðal annars ætlað að létta álagi af Hæstarétti. Dómsstigin verða því þrjú: Héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur. Sigríður skipaði 15 dómara við Landsrétt.
37 sóttu um þegar störfin voru auglýst. Dómnefnd fór svo yfir hæfi umsækjenda og skilaði af sér lista yfir hæfustu umsækjendur. Hún mælti með því að þeir sem röðuðu sér í 15 efstu sætin á listanum yrðu skipaðir í embætti dómara við Landsrétt.
Sigríður Andersen ákvað hins vegar að fara ekki eftir tillögum dómnefndarinnar þegar hún skilaði lista yfir þá umsækjendur sem hún vildi tilnefna. Hún lagði til að ellefu þeirra sem dómnefndin mat hæfasta verði skipaðir dómarar en skipti fjórum út og tilnefndi nýja í þeirra stað.
Sem dæmi þá tilnefndi Sigríður ekki umsækjanda sem var í sjöunda sæti á lista dómnefndarinnar en tilnefndi umsækjandinn í 30. sæti listans.
Í desember í fyrra komst Hæstiréttur að því Sigríður hafi brotið lög. Í dómnum kom fram að ef Sigríður ætlaði að víkja frá áliti dómnefndarinnar þá yrði ákvörðunin að vera reist á frekari rannsókn ráðherra, líkt og kemur fram í stjórnsýslulögum.
Í síðustu viku birti Stundin gögn sem sýndu að sérfræðingar þriggja ráðuneyta vöruðu Sigríði ítrekað við að breytingar á lista dómnefndarinnar gætu verið brot á stjórnsýslulögum.
Hvað gerist næst?
Eiríkur Jónsson og Jón Höskuldsson ætla að stefna íslenska ríkinu vegna ákvörðunar Sigríðar. Þeir voru á ofar á lista dómnefndarinnar en aðilar sem Sigríður tilnefndir.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.