Um hvað snýst málið?
Vodafone ætlar að kaupa ljósavakamiðla og fjarskiptaþjónustu 365. Viðræður eru hafnar en ýmsar forsendur þurfa að ganga upp til að kaupin gangi í gegn.
Hvað er búið að gerast?
Ef kaupin ganga eftir eignast Vodafone eftirfarandi:
- Stöð 2
- Stöð 2 Sport
- Stöð 3
- Bíórásin
- Bylgjan
- FM957
- X-ið
- Internet og farsímaþjónusta 365
Vodafone mun hins vegar ekki eignast:
- Fréttablaðið
- Vísir.is
Í tilkynningu frá Vodafone kemur fram að 365 miðlar hf. haldi samt áfram að reka fréttastofu og að samið verði um miðlun efnis milli aðila eftir því sem við á.
Þá kemur fram að kaupin séu háð ýmsum forsendum og skilyrðum. Metinn rekstrarhagnaður og horfur í rekstri þurfa að byggja á forsendum sem eru ásættanlegar að mati Vodafone eftir að svokölluð áreiðanleikakönnun hefur verið framkvæmd.
Þá eru kaupin háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og eftir atvikum annarra eftirlitsaðila.
Hvað gerist næst?
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, segir í samtali við Kjarnann of snemmt sé að segja til um hver endanleg niðurstaða í viðræðunum verði. „Við munum nýta næstu mánuði vel til þess að kanna hvort forsendur kaupanna standist,“ segir hann.
Ef viðskiptin ganga eftir má gera ráð fyrir að gengið verði endanlega frá kaupunum á fyrri hluta ársins 2017.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.