Auglýsing

12 ára kyrrstaðan sem þjóðkirkjan er að tala um útskýrð

Laun Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, voru hækkuð um 18 prósent í vikunni. Heildarlaunin eftir hækkunina eru 1.553.359 krónur. Laun presta og annarra innan þjóðkirkjunnar hækkuðu einnig. Hækkun biskups er afturvirk til 1. janúar 2017 þannig að um næstu mánaðarmót fær hún eingreiðslu, einskonar leiðréttingu á árinu, upp á 3,3 milljónir króna.

Mikil umræða hefur skapast um hækkunina en Agnes hyggst ekki tjá sig um málið né svara fyrirspurnum um persónulega afstöðu sína til hækkunarinnar. Á vef þjóðkirkjunnar er tekið fram að um sé að ræða kerfisbreytingar og launaleiðréttingar „eftir tólf ára kyrrstöðu að undanskilinni kjaraskerðingu hjá prestastéttinni á árinu 2009.“

12 ár. Það er langur tími. Sérstaklega í fjárhagslegu umhverfi íslensku krónunnar þar sem hvert ár er rússíbanareið. En er þetta rétt? Þetta hlýtur að vera rétt. Þetta er fullyrt á vef þjóðkirkjunnar. Í bókinni sem liggur til grundvallar á tilvist stofnunarinnar er beinlínis tekið fram að það sé bannað að ljúga.

Í þessari samantekt ætla ég að skoða laun biskups. Athugið að Karl Sigurbjörnsson var biskup til ársins 2012 þegar Agnes M. Sigurðardóttir tók við. Samantektin snýst semsagt ekki um persónu Agnesar heldur embætti hennar.

Skoðum málið og byrjum á árinu 2005 — árið sem meint 12 ára kyrrstaða hófst. Í desember árið 2005 hækkuðu laun æðstu embættismanna þjóðarinnar og Biskup Íslands var þar á meðal. Launin hans hækkuðu úr 740 þúsund krónum í 801 þúsund — það var fínn peningur á þessum tíma. Árið 2007 hækka heildarlaun biskups Íslands svo aftur og í þettta skipti upp í 834.465 krónur.

Í október árið 2008 varð hrun á Íslandi og eiginlega allir tóku á sig einhvers konar fjárhagslegt högg. Í janúar árið 2009 voru laun embættismanna sem falla undir kjararáð lækkuð. Lækkunin fór þannig fram að einingum sem greiddar eru fyrir fasta yfirvinnu var fækkað og verð sem greitt var fyrir hverja einingu var lækkað. Þeir sem voru með hæstu launin lækkuðu mest en enginn lækkaði minna en fimm prósent og meira en 15 prósent. Samkvæmt þjóðkirkjunni er þetta eina hreyfingin sem hefur orðið á launum kirkjunnar manna í 12 ár.

En árið 2011 fór landið að rísa á ný og laun í landinu fóru almennt hækkandi. Biskup Íslands, prestar og aðrir embættismenn sem falla undir kjararáð voru þar ekki undanskildir og fengu 4,9 prósent launahækkun ásamt eingreiðslu upp á 50 þúsund krónur og sérstakt 25 þúsund króna álag við greiðslu desemberuppbótar. Ári síðar hækkuðu laun þessa hóps um 3,5 prósent og árið eftir það hækkuðu laun um 3,25 prósent. Árið 2014 hækkuðu launin svo um 3,4 prósent. Þetta eru ekki miklar hækkanir og mögulega bara í takti við launaþróun eða verðlag.

En árið 2015 hækkuðu launin svo aðeins meira; um 9,3 prósent og í fyrra hækkuðu laun hópsins svo aftur um 7,15 prósent. Sæmilegur árangur á tveimur árum.

Þetta er sem sagt 12 ára kyrrstaðan sem þjóðkirkjan er að tala um; hóflegar launahækkanir árlega frá 2011 til 2014 og svo níu prósent hækkun fyrir tveimur árum og sjö prósent hækkun í fyrra. Það er alveg hægt að vera ósáttur við hversu mikið eða hratt launin hækka en það er erfitt að kalla þetta kyrrstöðu.

Og rétt er að taka fram að laun Agnesar hafa aldrei lækkað frá því að hún tók starfið að sér og samþykkti kaup og kjör. Það má því velta fyrir sér hvað er verið að leiðrétta í hennar tilfelli. Agnes óskaði sjálf eftir launahækkuninni í ágúst árið 2015 og bað kjararáð um að „endurmeta launakjör biskups Íslands með hliðsjón af ábyrgð og umfangi embættisins.“

Frá því að hún tók við starfinu hefur verið sögulegur flótti úr þjóðkirkjunni. Skráðir félagar voru 245.456 árið 2012 en eru í dag 236.481. Á sama tíma fjölgaði Íslendingum úr 319.575 í 338.349.

Ábyrgð og umfang embættisins er sem sagt ekki að aukast heldur þvert á móti stöðugt að minnka.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing