Auglýsing

Ólafur Ragnar og vesenið

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, er mikill pólitískur refur. Þegar hann gerir eitthvað veit maður að það er fullkomlega úthugsað og hluti af einhvers kona plani. Og planið er yfirleitt að réttlæta setu hans í forsetastóli. Eða sagan segir okkur allavega það.

Föstudaginn 22. apríl fór Ólafur í viðtal á CNN og hafnaði eftirminnilega að það ætti eftir að koma í ljós að hann eða fjölskylda hans hefði tengsl við aflandsfélög. „No, no, no, no, no, that is not go­ing to be the case,“ svaraði Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son, for­seti Íslands, þegar frétta­kon­an Christia­ne Aman­pour á CNN spurði hann út í málið.

Í kjölfarið fór af stað atburðarás sem hann virðist ekki hafa séð fyrir. Mánudaginn 25. apríl kom í ljós að fjölskylda Dorritar hefði átt aflandsfélög og fjölmiðlar fengu þau svör frá embættinu að hvorki hann né Dorrit hafi vitað af tilvist félagana.

Erfitt reyndist fyrir fjölmiðla að fá svör við spurningum sínum frá Ólafi, eins og rakið er í fínni samantekt á mbl.is.

Síðasta mánudag greindi Reykjavík Media svo frá því að Dorrit tengist að minnsta kosti tveimur aflandsfélögum í gegnum fjölskyldu sína. Forsetinn hefur ekki verið til viðtals um málið en forsetaritari hefur sagt að for­seti þekki ekki til fjár­hag­stengsla eig­in­konu sinn­ar við for­eldra sína eða aðra í fjöl­skyldu henn­ar.

Kynni til sögunnar Guðna Th. Jóhannesson — eina manninn sem er að velgja Ólafi undir uggum.

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis sem gerð var 2. og 3. maí, myndu 38 prósent þeirra sem afstöðu taka kjósa Guðna í embætti forseta Íslands ef kosið væri nú. 45 prósent myndu kjósa Ólaf Ragnar Grímsson í embættið en ellefu prósent myndu kjósa Andra Snæ Magnason. Aðrir njóta minni stuðnings.

Guðni hafði lýst yfir að hann ætlaði að tilkynna um ákvörðun sína í Salnum í Kópavogi fimmtudaginn 5. maí. Það var því augljóst að allt í einu myndi eitthvað myndi heyrast frá Bessastöðum þennan dag, eftir það sem undan er gengið. Það varð að reyna að stela senunni.

Hér er tíst frá því á miðvikudaginn:

Og að sjálfsögðu sendi Dorrit frá sér yfirlýsingu á fimmtudaginn.

Án þess að kafa ofan í efnistök yfirlýsingarinnar þá er hún ansi merkileg. Embættið hefur hingað til svarað fyrir Ólaf Ragnar og Dorrit. Þau eru hjón og það er mjög eðlilegt. Yfirlýsing Dorritar kemur hins vegar frá henni persónulega. Hún var meira að segja á ensku.

Þetta bendir til þess að okkar maður á Bessastöðum sé í kosningabaráttu. Það þarf að halda áfram að tefla. Allt sem Ólafur Ragnar gerir þarf að vera hluti að planinu og hann er að reyna að fjarlægja sig frá veseninu.

Leiðinlegt að vesenið sé eiginkona hans.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing