Sonur minn verður fjögurra mánaða í vikunni. Hann heitir Tindur og er fyndnasti maður sem ég þekki. Bókastalega allt sem hann gerir er fyndið. Hann hefur ekkert sérstaklega góða stjórn á hreyfingum sínum sem er mjög fyndið, hann gefur frá sér mjög fyndin hljóð og hann er alltaf rosalega hissa á öllu sem er vægast sagt mjög fyndið. Svo fretar hann oft og hátt sem er eiginlega alveg fáránlega fyndið.
Við foreldrar hans erum handviss um að sætara barn hafi ekki fæðst. Þau sem eru ósammála hafa bara ekki skoðað hann nógu vel. Eða séð hann í þau skipti sem hann vaknar fáránlega hress. Mig grunar líka að hann sé undrabarn — að hann sé eitt af þessum börnum sem kemst í heimsfréttirnar vegna stórkostlegrar náðargáfu og í framtíðinni munum við fá spurningar um hvernig okkur tekst að viðhalda bernskunni í lífi hans og hvort ótrúlegir hæfileikarnir flæki ekki líf okkar allra.
Eftir að hafa fygst með mögnuðu þroskaferli Tinds undanfarnar vikur er ég á því að við þurfum að byrja að skipuleggja einhvers konar viðbragðsáætlun. Miðað við það sem hann tekur upp á er nefnilega alls ekki ólíklegt að hann setjist óvænt við píanó og leiki Tunglskinssónötu Beethovens eftir að hafa heyrt hana einu sinni í móðurkviði eða grípi grænan vaxlit og skrifi niður pí með 18 þúsund aukastöfum. Það kraumar eitthvað í þessum agnarsmáa, en þó hlutfallslega stóra, haus.
Af hverju segi ég það? Ég skal taka dæmi. Í gær sat Tindur og fylgdist með mér baka inni í eldhúsi. Við vorum að hlusta á plötuna Queen of Denmark með John Grant og ég get svarið það: Hann var að syngja með. Hann var að vísu ekki að syngja textann og hljóðin sem hann gaf frá sér fylgdu ekki laglínunum. En hann var að gefa frá sér hljóð á sama tíma og tónlistin var í gangi. Fjögurra mánaða! Hringið í MENSA. Við þurfum að hefja þetta umsóknarferli og það strax.
Ég átta mig á því að ég hljóma í besta falli eins og veruleikafirrtur íþróttapabbi — svona LaVar Ball fátæka mannsins. En það sem þið voruð að lesa voru hugsanir sem ég þarf að reyna að beisla á hverjum einasta degi. Mér finnst allt sem sonur minn gerir merkilegt. Ekki bara merkilegt; ótrúlegt. Ekki bara ótrúlega merkilegt heldur líka til marks snilligáfu á einhverjum sviðum. Hann er samt bara fjögurra mánaða, veit ekki neitt og þannig á það að vera.
Þrátt fyrir að vera meðvitaður um að ég búi draumaheimi þá er ég alltaf tilbúinn að segja fólki frá stórkostlegum afrekum sonar míns. Og það er hægt og rólega að renna upp fyrir mér að fólki finnst kannski ekki eins merkilegt og mér að Tindur hafi reist sig við — þrátt fyrir að hann hafi gert það (nánast) alveg sjálfur. Fólki finnst kannski bara fullkomlega eðlilegt en ekki til marks um vilja og þor að hann sé alltaf fáránlega fljótur að spyrna sér úr sokkunum og kannski finnst fólki bara sætt en ekki til marks um ótrúlegt afl að hann sé hársbreidd frá því að ná að velta sér á bakið.
Ef ég væri í sama vinahópi og pabbi Elon Musk myndi hann segja okkur félögunum frá því að sonur hans sé langt komin með að leysa mörg af helstu úrslausnarefnum samtímans ásamt því að koma mönnuðu geimfari til Mars. Hann væri varla búinn að sleppa orðinu þegar ég myndi frussa út úr mér: „Það er ekkert!“ og útskýra, í fullkominni einlægni, hvernig sonur minn sé byrjaður að opna á sér lófann þegar ég hjálpa honum að strjúka um vanga mömmu sinnar. „Ég er að segja ykkur það. Hann skilur nákvæmlega hvað er í gangi!“
„Allt í lagi, Atli.“
Þið þurfið samt ekki að hafa áhyggjur af þessu. Ég ætla hvorki að hætta að hafa tröllatrú á syni mínum né reyna að ýta honum á helgarnámskeið í eðlisfræði ef hann rekst í réttan lit á leikteppinu þegar ég spyr hvar sá guli er. Og þegar hugur hans þroskast vona ég minn þroskist með svo við getum tamið okkur gagnrýna hugsun saman. Við erum nefnilega báðir að upplifa hluti sem við höfum hvorki séð né fundið áður og þetta er stórkostlegt ferðalag sem við erum í saman, feðgarnir.
Sjá einnig: Sex hlutir sem hræddu úr mér líftóruna áður en ég varð pabbi í fyrsta skipti