Fréttir / Viðtal
Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: Emmsjé Gauti
Fyrir tveimur dögum síðan gróf Emmsjé Gauti göng inni í heilann minn. Hann gróf göng inni í heilann minn og inni í gönginn ljóstraði hann upp persónulegan sannleik í formi rapptexta: „Ég djamma eins og ég eigi afmæli.“ Síðan þá hefur þessi lína verið föst í heilanum mínum og get ég ómögulega losnað við hana. Ég bara þyl hana upp í sífellu og yfirleitt á mjög svo óviðeigandi augnablikum, sjáðu:
Á meðan móðir mín talar við mig á Skype: „Ég djamma eins og ég eigi afmæli!“
Á klósettinu: „Ég djamma eins og ég eigi afmæli!“
Í heita pottinum í Vesturbæjarlaug: „Ég djamma eins og ég eigi afmæli!“
Á kaffihúsi andspænis óvirkum alka sem hefur óbeit á helstu þáttaskilunum í lífi mannsins: „Ég djamma eins og ég eigi afmæli!“
Í viðleitni minni til þess að leysa úr þessum vanda hafði ég samband við Emmsjé Gauta og spurði hann nokkrar spurningar um lagið, myndbandið, lífið og tilveruna.
Þetta var svona „hair-of-the-dog-that-bit-you“ dæmi, þar sem maður reynir að losna við þynnkuna með því að hella sig fullan, sumsé, ég reyndi að losna við Gauta með því að setja mig í samband við hann.
Sæll, Gauti. Segðu mér: Hver var kveikjan að laginu?
Kveikjan að laginu var að ég samdi línurnar „Mamma viltu mæla mig, ég er orðinn svo heitur“ eftir að Strákarnir lagið fór á flug. Restin kom svo um leið og ég heyrði þetta sturlaða beat sem ég rappa yfir.
(Fjandinn hafi þetta sturlaða beat og þetta grípandi viðlag, hugsa ég með sjálfum mér.)
Hver var hugmyndin á bakvið myndbandið?
Upprunalega hugmyndin var svo sturluð að það var ekki hægt að framkvæma hana. Mig langaði þá að dulbúa barnaafmæli sem mjög tæpt party. Krakkar að taka smartíspillur og trippa, gubbandi og í slag. Það var mjög góð hugmynd en hún hefði þurft að vera rosalega vel framkvæmd svo hún yrði ekki bara subbuleg. Í kjölfarið kom upp sú hugmynd að sýna tvo heima sem báðir skarta afmælisveislu.
Þegar þú talar um að djamma eins og þú eigir afmæli, erum við að tala um stórafmæli? Og ef svo er, hvaða stórafmæli?
Ég á alltaf stórafmæli þegar ég á afmæli og ég lifi lífinu eins og ég eigi alltaf afmæli.
(Það hvarflar að mér að líf mitt er eins og áttræðisafmæli frænku minnar: illa sótt og tilþrifalaust.)
Varstu ánægður með fyrsta þátt Rapp í Reykjavík?
Heldur betur. Ég hef auðvitað bara séð þáttinn sem fjallar um mig, en Dóri og Gaukur eru með efni í höndunum sem er sturlað. Þeir eru að fanga rappsenunua á hárréttum tíma. Fyrsti þátturinn var ótrúlega vel gerður og ég efast ekki um að restin sé jafn góð. Rapp í Reyjavík er nútíma Rokk í Reykjavík nema bara í betri hljóð og myndgæðum.
Hafði Bent samband við þig varðandi andlistfarða kommentið í þættinum?
Nei ekki ennþá. Ég hef samt ekki miklar áhyggjur af því.
Hvað tekur þú mikið í deadlift / bekkpressu?
Ég tek 170 í deadlift og 110 í bekkpressu. Ég er ógeðslega sterkur. Ég get rifið sundur símaskrá.
Hver er massaðasti rapparinn í dag?
Ég veit það ekki alveg. Verðum við ekki að fara að henda í bekkpressukeppni rappfélagsins?
(Jú, það væri ekki vitlaust, hugsa ég. Sjálfur á ég 115 í bekk, en þá var ég 18 ára og starfaði sem handlangari fyrir afa minn, múrarann. Í dag er ég aðallega í fagurbókmenntunum. Þær styrkja sálina en ekki kassann.)
Hvern styður þú til embættis Forseta Íslands?
Andri Snær er sá maður sem mér finnst vera mest sannfærandi af þessum frambjóðendum. Ég mun þó skoða alla kosti sem bjóðast. En staðan er núna ANDRI 4 PREZ.
Hver er helsta ógnin sem steðjar að mannkyninu?
Chemtrails og eðlufólk.
Eitthvað að lokum?
Munið að láta ekki traðka á lýðræðislegum rétti ykkar og mótmælið þó að það sé ógeðslega leiðinlegt til lengdar. Svona kjaftæði verður ekki liðið – já og vagg&velta kemur út í sumar!
(SKE þakkar Gauta kærlega fyrir spjallið. Hér er svo þessi víðfrægi eyrnarormur. Passið ykkur.)