Auglýsing

„FUBAR stendur fyrir Fucked Up Beyond Any Recognition.“ – Sigga Soffía

Samtalið

SKE: Til er land – nafnlaust land – land sem veitir stórum hluta mannkynsins athvarf. Og þó svo að landamæri þessa lands séu opin, þá má segja að þau séu einnig, í einhverjum skilningi orðsins, lokuð; innflytjendur streyma inn í milljónatali, á meðan útflytjendur eru sjaldgæfir. Land þetta státar sig af þægilegu loftslagi, þar er hvorki of heitt né of kalt, og segja má að þetta sé eina landið sem er með öllu ónæmt fyrir áhrifum árstíðanna. Þar eru engir jarðskjálftar, fellibylir eða eldfjöll. Bókasöfn þessa lands geyma aðeins þær bækur sem falla íbúum sínum í geð og þær bækur sem ekki hugnast lesendum hverfa úr hillunum fyrirvaralaust (það sama á við kvikmyndahúsin og sjónvarpsdagskrána). Og þó svo að vel yfir helmingur mannkyns búi í þessu landi, þá er byggðin strjál. Þar er sérstakt hverfi fyrir sérhverja tegund manna – og þannig búa hvítir repúblikanar úr millistéttinni aðeins með öðrum hvítum repúblikönum úr millistéttinni. Þó svo að land þetta sé nafnlaust þá er það yfirleitt kennt við þá landfræðilegu umgjörð sem umlykur það, sumsé Þægindarrammann. Þægindarramminn er í raun líknardeild fyrir þá sem deyja lifandi dauða. Þar deyja samböndin, þar deyr listin, þar deyja hugmyndirnar. Fyrir nokkrum dögum síðan fyrirhitti ég manneskju sem hefur ekki einvörðungu flust búferlum úr þessu landi – heldur virðist hún einnig hafa lýst stríði á hendur hugmyndafræði þess (síðan hef ég einsett mér að gera slíkt hið sama). Ég er að sjálfsögðu að tala um dansarann og listakonuna Siggu Soffíu sem frumsýnir verkið FUBAR í Gamla Bíó þann 26. október.

Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: Sigga Soffía
Ljósmyndir: Marino Thorlacius

(Í heiðarlegri íslenskri grámyglu staulast ég í gegnum anddyri Canopy Hotel og svipast um í kringum mig. Ég er að leita að Siggu. Hún er ekki á kaffihúsinu. Hún er ekki í setustofunni. Hún er ekki í horninu þar sem gríðarstóra bókahillan virðist teygja sig í átt að himinhvolfinu. Kannski er hún ekki komin. Ég rifja upp samtal okkar frá því um morguninn og minnist þess að Sigga nefndi sérstaklega ákveðinn arinn. Mig minnir að það sé arinn á annarri hæðinni og geng upp stigann til þess að athuga. Á efstu þrepum stigans kem ég svo auga á Siggu, sem situr sérdeilis einbeitt á svip í sófanum. Hún minnir mig á Diane Keaton í Annie Hall. Hún er í tvíd jakka og Adidas bol, líkt og að hún sé platónska frummynd bóhemsins – og ég elska bóhem. Tel sjálfan mig tilheyra þeim hópi. Ég kveiki á diktafóninum og heilsa henni með faðmlagi. Sigga kvartar yfir því að það sé slökkt á arninum.)

SKE: Hvað segirðu, nóg að gera?

Sigga Soffía: Já, það er enginn með svipuna og ef ég er ekki að reka á eftir sjálfri mér þá gerist ekki neitt.

(Blaðamanni finnst þetta ágætis lýsing á listamanni, sumsé manneskja sem er í senn ekill og hestur.)

„Ein dúfan settist á höfuð eiginkonu bandaríska sendiherrans.“

– Sigga Soffía

SKE: FUBAR er ekki fyrsta sólósýningin þín, þú hefur verið með sólósýningu áður, ekki rétt?

Sigga Soffía: Ekkert í líkingu við þetta. Árið 2012 eða 2013 þá var ég með sólósýningu í Hallgrímskirkju, sem var í samvinnu með organista. Það æfingatímabil varði í mánuð. Það mættu 800 manns og ég sleppti 15 dúfum út í salinn. Ein dúfan settist á höfuð eiginkonu bandaríska sendiherrans.

(Sigga hlær.)

Sigga Soffía: En það var bara ein sýning.

SKE: Hvers vegna valdirðu Gamla Bíó sem vettvang fyrir FUBAR?

Sigga Soffía: Gamla Bíó býður upp á meiri nálægð. Eins og sviðið er uppsett þá tekur salurinn aðeins 200 manns. Síðustu tvö verk sem ég hef sviðsett voru á stóra sviði Borgarleikhússins og Þjóðleikhússins. Þar getur maður ekki verið að vinna með mjög litlar hreyfingar.

(Sigga bregður sér í gervi gamals manns sem pírir augunum í átt að sviðinu á aftasta bekk: „Af hverju er hún ekki að hreyfa sig!“ Ég hlæ.)

„Mig langaði að setja upp „platform“ þar sem fólk væri að hanga og tala um list – ekki á Facebook. Hitta mannfólk. Horfast í augu.“

– Sigga Soffía

Sigga Soffía: Gamla Bíó er líka svo æðislegt hús; þar er einhver rómantískur andi sem svífur yfir vötnum. Við erum með mjög hresst koncept: Frumsýning á hverju kvöldi og að hverri sýningu lokinni er listamannaspjall. Fólk eins og Saga Garðars, Stebbi Jóns, Barði Jóhannsson o.fl. stýra skrítnum en hressum spjöllum um listina og lífið. Svo verður „live“ djassband frammi, þar sem einn málar það sem hinir eru að spila. Mig langaði að setja upp „platform“ þar sem fólk væri að hanga og tala um list – ekki á Facebook. Hitta mannfólk. Horfast í augu.

(Sigga leggur sérstaka áherslu á þessi síðustu orð og gefur þar með í skyn að í nútímasamfélaginu séu hinir eðlilegustu hlutir orðnir tiltölulega sjaldgæfir. „Sigga er lifandi afneitun þessarar þróunnar,“ hugsa ég með sjálfum mér.)

Sigga Soffía: Ég hlustaði á skemmtilegt viðtal við Þorleif Örn Arnarson, sem leikstýrir Njálu. Hann sagði að leikhúsið væri orðið eins og kirkjan var í gamla daga – eini samkomustaðurinn. Kirkjan var fastur punktur þar sem allir úr sveitinni hittust. Það er alveg pínu rétt. Þú hittir rosa marga og það er ógeðslega gaman.

SKE: Og ert ekkert endilega með nefið ofan í símanum.

Sigga Soffía: Nei, einmitt.

(Sigga segir mér að þetta verða sex sýningar í Gamla Bíó. Í kjölfarið heldur teymið í krossferð um landsbyggðina: Egilsstaðir, Patró, Rif, Ísafjörður, Akureyri. Hér fyrir neðan má sjá nýjustu stikluna úr Fubar, sem SKE frumsýnir.)

Sigga Soffía: Svo sýnum við á Airwaves í Hörpunni. Það verður mjög skemmtilegt því þar ætlum ekki að setja upp sýninguna í sinni hefðbundinni mynd. Við ætlum að sviðsetja það sem okkur finnst hressast úr sýningunni ásamt öllu „deleted scenes“ efninu, sem við erum að bugast yfir að geta ekki troðið inn í sýninguna. Því að við elskum það – en það passar engan veginn inn í sýninguna sjálfa.

SKE: Hvernig kom samstarfið með Hildi Yeoman, Helga Má og Jónasi Sen til?

Sigga Soffía: Ég hef kóreógrafað nokkrar tískusýningar fyrir Hildi. Hún hefur oft beðið mig um eitthvað fáránlegt og svo hef ég launað henni greiðann. Hún hannaði t.d. kjól úr ljósleiðurum fyrir verkið Og heimurinn kristallast. Eftir verkið bað Björk (hin eina sanna) Hildi um að gera samskonar búning fyrir sig. Þannig að sá kjóll fór af sviði Borgarleikhússins til Bjarkar – bara efnið í kjólinn kostaði 300.000 kr. enda er það allt gert úr ljósleiðurum. Ég er með myndbrot af Lovísu dansara íslenska dansflokksins inni á Instagram síðunni minni þar sem ljósin slökkna hægt og rólega er hún dansar í hringi; ég gæti horft á þetta myndbrot að eilífu, mér finnst það svo fallegt.

(Augu hennar Siggu ljóma af innlifun. Hér er hlekkur á Instagram síðu Siggu: https://www.siggasoffia.com/untitled-custom-page)

Sigga Soffía: Mig langaði að vinna með henni því hún hefur sína eigin sýn, sem er ekki endilega algengt í dansheiminum. Ég hef viljandi beðið hana um að koma með eitthvað ögrandi sem hefur áhrif á verkið. Mér finnst gaman þegar tónlistin, búningarnir eða leikmyndin hafa áhrif á dansinn sjálfan. Dansverkið er ekkert endilega bara dansarinn að dansa.

SKE: Er eitthvað sem Hildur hefur lagt til sem hefur breytt þinni nálgun á kóreógrafíuna?

Sigga Soffía: Algjörlega. T.d. i Svörtum fjörðum vorum við dansararnir í sundbolum og pinnahælum – það var mjög flókið.

(Við ræðum aðeins Jónas Sen.)

Sigga Soffía: Ég hitti Jónas fyrst í Belgíu, þar sem hann var að semja fyrir belgískan leikstjóra sem ég var einnig að vinna fyrir. Það sem mér fannst svo heillandi við Jónas var að hann skrifar allt niður í nótum. Ég á t.d. heila nótnabók úr Svörtum fjöðrum með allri frumsamdri tónlistinni. Það er svo margt sem er búið til í svona verki, ég held að fólk geri sig ekki grein fyrir því. Þetta er heilt tónverk, heilt dansverk, fullt af nýjum textum – þetta er svo margslungið!

SKE: Svo er það Helgi Már sem kemur að leikmyndinni.

Sigga Soffía: Ég vann fyrst með Helga Má í Svörtum fjöðrum en hann gerði líka leikmyndina í Og himinninn kristallast og nú í FUBAR. Það er algjörlega dásamlegt að vinna með honum. Hann er ekki bara frábær myndlistarmaður heldur hoppar hann í dramatúrgíu, hugmyndavinnu og er endalaus uppspretta fróðleiks. Ég elska að vinna með fólki sem hugsar stórt og er jafn öflugt og hann er! Algjörlega ómetanlegt að vinna með fólki eins og honum Helga.

„Þetta er lingó úr hernum sem þýðir Fucked Up Beyond Any Recognition.“

– Sigga Soffía

SKE: Hvaðan kemur nafnið FUBAR?

Sigga Soffía: Þetta er lingó úr hernum sem þýðir Fucked Up Beyond Any Recognition.

SKE: Shit … það er heavy.

(Við hlæjum.)

Sigga Soffía: Já, þetta byrjaði sem vinnutitill en svo var ekkert annað sem fangaði heildarmyndina jafn vel.

SKE: Og þetta er innblásið af hryðjuverkunum í París í fyrra, ekki satt?

Sigga Soffía: Það var kveikjan, jú, en í rauninni er þetta bara óður til lífsins. Þetta var óvart mjög persónulegt verk. Þetta er eiginilega bara ég sem „performer“ að segja alls kyns mismunandi skrítnar og ekki skrítnar sögur, bæði eitthvað frábært og ömurlegt. Ég er að reyna vera mjög einlæg og …

(Ég gríp óvart frammí.)

SKE: Er þettta einhvers konar ævisaga kannski?

Sigga Soffía: Ekki beint ævisaga, heldur er ég meira að segja í raun og veru … Við lendum óheppilega í hryðjuverkunum i París, eða ekki beint, það kom ekkert fyrir okkur. Við fengum bara hressilega að finna fyrir því að við héldum að við værum að fara deyja, sem var mjög raunveruleg tilfinnning. Mjög skrítið að halda að einhver vilji skjóta mann með rifli. Það er tilfinning sem Íslendingar upplifa, flestir, aldrei.

SKE: Hvar voruð þið?

Sigga Soffía: Við vorum á hóteli í Marais, 400 metra frá Bataclan og 400 metra frá kambódíska staðnum. Á föstudeginum þegar árásin átti sér stað vorum við sem betur fer inni. Síðan tveimur dögum eftir árásina, vorum við í einhvers konar útgöngubanni. Við vorum ekki búin að borða neitt vegna þess að fólki var sagt að það þyrfti ekki að mæta til vinnu. Þess vegna voru bara þrír starfsmenn á hótelinu. Við hættum okkur því út og fengum okkur að borða – ég, maðurinn minn og dóttir okkar – og er við göngum heim eftir matinn lendum við í hjörð af fólki sem er á harðaspretti frá tveimur strákum á vespum sem halda á einhverju svörtu. Þetta fólk var að koma frá minningarathöfn í Republic.

(Sigga lifir sig inn í frásögnina og ég týnist í sögunni.)

„Við urðum um leið hluti af þessari hjörð: fólk kastaði sér á bakvið bíla og undir bíla. Þetta var eins og sena í bíómynd – algjört panikk.“

– Sigga Soffía

Sigga Soffía: Skilaboðin voru að þessir menn væru að koma að skjóta okkur öll og sprengja sig í loft upp. Við urðum um leið hluti af þessari hjörð: fólk kastaði sér á bakvið bíla og undir bíla. Þetta var eins og sena í bíómynd – algjört panikk. Hér erum við, einhverjir Skandinavar á hlaupum með ungabarnið okkar, að fela okkur í einvherri verslun, bíðandi eftir því að vera skotin, með grátandi Kóreska stelpu við hliðina á okkur. Einhvern veginn hafði ég alltaf séð fyrir mér – þó svo að ég hafði aldrei pælt í þessu áður – að ég mundi deyja í íslenskri náttúrunni, eins og Börn náttúrunnar. Uppi á fjalli. Í rigningu. Ég sá ekki fyrir mér að ég yrði skotin í einhverri hégómlegri tískuverslun í París með barnið mitt í fanginu. Með iPhone-inn í hendinni.

SKE: Þetta er rosalegt.

Sigga Soffía: Við enduðum svo á því að bíða inn í búðinni þangað til að við flúðum út bakdyramegin í myrkrinu. Þaðan hlupum við inn á hótel, með allar þyrlurnar á sveimi fyrir ofan okkur. Það var líka furðulegt að sjá hversu fljótt einhvers konar kerfi var komið upp; fólki var byrjað að tísta um staðsetningu árásarmannanna um leið. Maður sá angistina í andlitum fólksins upplýsta af símaskjáunum í myrkrinu.

(Mér finnst einhver veginn eins og þessi sena eigi heima á sviði. Þessi setning: „Maður sá angistina í andlitum fólksins upplýsta af símaskjáunum í myrkrinu, er svo ljóðræn.)

Sigga Soffía: Þetta var áhugavert eftir á, fannst mér, sem sviðslistarmanni, bæði hvað varðar tilfinningalegu áhrifin á viðbragðstíma, á vöðva; maður breytist í dýr. Það fara allir í „survival mode.“ Öll þessi siðprúða samfélagslega hegðun fer út um gluggann. Fólk klórar, öskrar, bítur, hleypur yfir hvert annað. Síðan eru allir á Twitter að sjá hvað er að gerast. Þetta er svo sérstakt „scenario.“ Útgangspunktur verksins er sá að ég er að taka þetta fyrir á svolítið abstrakt hátt. Ég endurskapa þennan atburð í dansi. Ég dansa í „slow motion“ og svo í „fast forward.“ Verkið tengist þessari frásögn beint og óbeint. Það eru alls kyns hlutir sem hafa búið mig undir þessa reynslu, sem hafa gert mér kleift að bregðast hraðar við þessum aðstæðum. Þúsund litlir hlutir í lífi mínu: „Æ, já – ég er rosalega fegin að ég sé í frábæru formi vegna þess að ég gat hlupið ógeðslega hratt með barnið mitt í fanginu. Ég er fegin að ég er vön því að borða rusl en virka samt á adrenalíni – alltaf! Ég er fegin því að vera mjög mikið tognuð og það skiptir mig engu máli þó svo að ég sé meidd. Ég get haldið áfram.“

(Sigga hlær.)

Sigga Soffía: Svo er það svo grillað: Ég er þarna í einhverju áfalli, get ekki grátið að sökum adrenalíns og þá pípir síminn allt í einu – og þá ert þú að senda mér skilaboð fyrir Spurt og svarað í SKE.

SKE: Alveg rétt …

Sigga Soffía: Ég var bara að rifja þetta upp núna. Ég var þarna í einhverjum tilfinningalegum rússíbana og byrja alllt í einu að skrifa þér – manni sem ég þekki ekki neitt, í rauninni: „Hæ, ég var næstum því dáin.“ Og þú svarar til baka: „Haa? Já, okay. Hræðilegt.“

(Við hlæjum.)

SKE: Ég var búinn að gleyma þessu.

Sigga Soffía: Í verkinu tek ég fyrir alls kyns kómíska og tragíkómíska hluti sem ég hef gengið í gegnum. Ég dansa og segi frá …

SKE: Þannig að þetta er frásögn líka?

Sigga Soffía: Já, þetta er bara ÉG!

(Sigga hlær.)

Sigga Soffía: Ég horfi svo oft á uppistand og uppistandarar mega alltaf segja mjög persónulega hluti og manni finnst það mjög gaman. Af hverju ætti ég ekki að segja frá einhverju rugli sem ég lent í, ef það getur verið einhverjum til ánægju? Er það ekki bara glæsilegt?

(Sigga víkur sér að Þægindarrammanum, þessum sama og minnst er á í inngangi greinarinnar.)

„þetta er líka skemmtilegt vegna þess að þetta eru allt sannar sögur – og sannleikurinn er svo „fucked up“ að þú gætir aldrei búið til svona mikið kjaftæði.“

– Sigga Soffía

Sigga Soffía: Það sem mér finnst áhugavert er að þetta er svolítið óþægilegt að gera eitthvað svona persónulegt, en þetta er líka skemmtilegt vegna þess að þetta eru allt sannar sögur – og sannleikurinn er svo „fucked up“ að þú gætir aldrei búið til svona mikið kjaftæði. Það er líka svo oft þegar maður er í svona skrítnum aðstæðum þá hugsar maður: „Það væri aldrei hægt að skrifa atriði í bíómynd vegna þess að þetta er of fáránlegt …“

(Tveir góðkunnir molar úr bókmenntunum vitja mín: „Life imitates art (art imitates life)“ og „Stranger than fiction.“)

Sigga Soffía: Ég tala um það í sýningunni þegar ég var um borð í rútu í Oman að fara i gegnum vegatálma, en í rauninni var þetta ekki vegatálmi heldur bara sex menn í leðurvestum með hríðskotabyssur að reyna kúga fé úr túristum.

SKE: Hvað varstu að gera í Oman?

Sigga Soffía: Maðurinn minn, sem er ljósmyndari, var að mynda. Við vorum nýbyrjuð saman: „Já, akkúrat förum til Sameinuðu arabísku furstadæmina í fyrstu rómantísku ferðinni okkar þar sem það er bannað með lögum að leiðast eða kyssast!“ Af hverju fórum við ekki til Parísar!? Í Oman voru arabískir menn að hrækja á eftir mér vegna þess að ég var í of stuttum stuttbuxum. Ég hafði lesið í Trip Advisor að það væri í lagi ef maður væri að hylja hár og axlir vegna þess að í Dubai eru menn frjálslyndari. En það var algjört kjaftæði. Mér hefur aldrei liðið jafn illa þegar ég gekk um í stuttbuxur að bera þessi brjálæðislega kynæsandi hné sem ég virðist vera með! Það var bara eins og ég væri á brjóstunum á Laugaveginum. Það var allt brjálað! Ég sagði einmitt manninum mínum að við yrðum að kaupa buxur núna! Ég var samt með svarta slæðu og hatt en það sést smá í hnéð.

SKE: Það má ekki.

Sigga Soffía: Mér fannst mjög áhugavert að vera í samfélagi þar sem konur eru annars flokks. Þetta er svo algjörlega fáránlegt. Árið er 2016. Sádí Arabía er fáránleg. Konur mega ekki keyra bíl þar, geta ekki gert neitt nema með leyfi karlmanns. Við vorum í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum í DUBAI sem þykir frjálslyndasti hluti Arabíuskagans, en ekki frjálslyndari en það að þegar ég reyndi að panta mér drykk á mjög hipp og kúl hóteli, brosir þjónninn vandræðalega til mín og snýr sér síðan að manninum mínum og spyr: „Má hún panta sér þennan drykk?“ Og þá blússaði upp íslenska valkyrjan í mér og ég byrjaði að ganga berserksgang á einhverri strönd á meðan kæarastinn minn bilaðist úr hlátri.

(Ég segi Siggu frá ferð minni til Kairó í fyrra og blaðra eitthvað um mikilvægi þess að ferðast.)

„Mér finnst líka svo áhugavert að á svona stundum sannast hið margkveðna: ,Vá hvað ég hef það gott heima hjá mér. Vá hvað Reykjavík er frábær borg!'“

– Sigga Soffía

Sigga Soffía: Mér finnst líka svo áhugavert að á svona stundum sannast hið margkveðna: „Vá hvað ég hef það gott heima hjá mér. Vá hvað Reykjavík er frábær borg!“ Maður nýtur lífsins meir. Eins með þetta verk, það er engin niðurstaða. Þetta er bara óður til fáránleika lífsins og ég er einnig að reyna njóta þess að vera kona sem get unnið við það að vera dansari í Skandinavíu, ásamt því að vera lesandi og skrifandi og keyri bíl og …

SKE: Gengur um í stuttbuxum.

Sigga Soffía: Akkúrat og flýg flugvél og hef það bara fínt.

SKE: Akkúrat.

Sigga Soffía: Þetta verk á að vera hresst og með alvarlegum undirtónum, því auðvitað er þetta frábært stöff, þetta líf – en á sama tíma líka svo hræðilegt. Mér finnst oft erfitt að lesa fréttir frá Sýrlandi og fleira. Maður vill gera eitthvað en er svo ótrúleg hjálparlaus. Maður gefur í UNICEF og deilir einhverju á Facebook. Manni langar að gera eitthvað meira …

(Samtalið tekur beygju í átt að hörku sviðslistamanna. Sigga segir mér að ef maður er sviðslistamaður þá skiptir ekki máli ef þú ert að missa ömmu þína eða með ælupest – þú sýnir samt: „Já, ertu slöpp? Þá setjum við fötu hér og þú ælir í hana á milli atriða. Vegna þess að það er fullur salur af fólki og við erum hér í Belgíu og við verðum að sýna.“)

Sigga Soffía: Sá „performer“ sem getur harkað sem mest af sér er trausts sinn verður. Og þú vilt vinna með þannig manneskju. Auðvitað vill maður það, en samt innan þess ramma og … Ég hef aldrei kallað „Time Out“ og tek þess vegna bara „Burn Out“ í staðinn!

(Sigga hlær. Við ræðum aðeins uppistand Louis C.K. Sem er í miklu uppáhaldi hjá Siggu.)

Sigga Soffía: Mér finnst hann svo frábær og ég hugsa oft: „Nákvæmlega! Maður getur kannski bara sagt svona alls kyns og maður má hafa asnalegar skoðanir og þá geta allir hinir verið ósammála þér og þá er það bara þannig.“

SKE: Hefur danslist og uppistand verið blandað saman áður?

Sigga Soffía: Nei, og guð minn góður ég ætla ekki að kalla þetta uppistand! Ég er bara að segja einhverjar sögur. Og þetta er alls ekki fyndið. Þetta er bara tragíkómísk þunglyndi!

(Sigga hlær.)

Sigga Soffía: Nei, djók. Það er svolítið eins og ég trúi ekki á eigin verk: „Þetta er bara glatað verk! Ekkert vera að kaupa ykkur miða!“

(Við hlæjum.)

Sigga Soffía: En það væri frábært ef einhver gæti teflt þessum tveimur greinum saman.

SKE: Spennandi. Ég er mjög spenntur fyrir þessu. Ég hef líka svo gaman að öllu svona persónulega og þegar margar listgreinar koma saman. Ætli að það sé ekki einhver framtíð …

Sigga Soffía: Í evrópsku senunni er svo mikill samruni, þar er lifandi tónlist, dans og þar er ekkert endilega gerður greinarmunur á leikara eða dansara – þetta eru bara sviðslistamenn. Og það er svo frábært. Maður sér kannski sirkúslistamann sem er einnig fiðluleikari. Það eru svo margir sem hafa svo marga hæfileika og þegar maður fer að spjalla við fólk þa áttar mig á þessu … ég var t.d. í Flugskóla Íslands sem „backup career.“

SKE: Kláraðirðu námið?

Sigga Soffía: Eg kláraði bóklega námið. Ég er búin með 60 tíma í loftinu. Ég átti bara eftir að taka hringinn með kennaranum. Komin með öll skírteini og allt – en þá byrjaði ég að túra með Ernu.

SKE: Sérðu fyrir þér að fljúga í framtíðinni?

Sigga Soffía: Segjum bara að flugið sé ákveðið „backup plan“ ef allt annað klikkar. Ef það mætir enginn í Gamla Bíó þá skipti ég bara um „career!“

(Við hlæjum. SKE hvetur alla til þess að tryggja sér miða á FUBAR í Gamla Bíó. Einnig hvetur SKE fólk til þess að flytjast búferlum úr því nafnlausa landsvæði sem umlukið er Þægindarrammanum. Hvað er þægindarramminn annað en líknardeild fyrir þá sem deyja lifandi dauða?)

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing