Viðtöl
SKE: 28. mars síðastliðinn gaf íslenska söngkonan Glowie út myndband við lagið „Cruel.“ Lagið samdi Taylor Monet Parks—betur þekkt sem Tayla Parx—en Parx hefur meðal annars smíðað lög og texta fyrir tónlistarfólk á borð við Jennifer Lopez, Khalid og Ariana Grande (OZGO og Kara DioGuardi komu einnig að smíð „Cruel“). Í bréfi sem fylgdi útgáfunni á tumblr opnaði Glowie sig með miskunnarleysið, bæði í garð annarra og sjálfs sín: „Jafnvel er ég rita þessi orð hugsa ég: ,Þetta er alveg vonlaust hjá mér og ég verð aldrei góður rithöfundur’ … en eins sorglegt og það kann að hljóma þá knýr þessi dómharka mig áfram.“ Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Glowie og spurði hana nánar út í lagið og myndbandið. Líkt og fram kemur í viðtalinu glímdi Glowie við slæma bakverki þegar á tökum myndbandsins stóð. Hún harkaði þetta engu að síður af sér og tók þetta á adrenalíninu. Geri aðrir betur.
Viðtal: RTH
Viðmælandi: Sara Pétursdóttir
Ljósmynd: „Cruel“ (Tónlistarmyndband)
SKE: Sæl, Glowie. Hvað segirðu gott?
Glowie: Hæhæ, ég hef það mjög fínt. Það er nóg að gera hérna í Lundúnum—sem er bara gaman.
SKE: Þú varst a gefa út myndband við lagið Cruel. Grundvallast texti lagsins á raunveruleikanum eða er þetta alfarið spuni?
G: Þetta lag er mér mikils virði. Lagið samdi Tayla Parx—sem samdi t.d. lögin Thank U, Next og 7 Rings (meðal annarra) sem eru að finna á nýju plötunni hennar Ariana Grande. Tayla er frábær lagahöfundur. Viðfangsefni Cruel er einelti og byggir á hennar eigin reynslu. Ég heyrði lagið í fyrsta skipti undir lok sumars 2017 og fór til Stokkhólms til þess að hljóðrita lagið með Oscar, sem pródúseraði lagið. Lagið hefur sérstaka þýðingu fyrir mig vegna þess að ég var lögð í einelti sjálf þegar ég var yngri. Síðasta ár hef ég einnig tengt lagið við önnur áföll; mér var t.d. nauðgað þegar ég var 16 ára. Frá því að ég var lítil hef ég einnig glímt við fullkomnunaráráttu. Ég get verið mjög hörð við sjálfa mig. Ég á erfitt með að hrósa sjálfri mér og á það til að rífa mig frekar niður. Í dag er ég hins vegar komin á svo góðan stað andlega að mér fannst þetta vera rétti tíminn til þess að gefa lagið út; til þess að deila laginu með öðrum; til þess að deila minni reynslu á einelti og áreiti frá öðrum—sem og frá sjálfri mér. Að mínu viti fjallar lagið ekki einungis um einelti heldur um grimmd yfir höfuð, hvort sem hún kemur frá öðru fólki eða frá okkur sjálfum. Við erum tilfinningaverur, við mannfólkið, en eigum það til að bæla tilfinningarnar—sérstaklega þegar okkur líður ekki vel. Ég vona að þetta lag hvetji fólk til að opna sig tilfinningalega og hleypa tilfinningunum út. Það er það besta sem maður getur gert fyrir sjálfan sig til að líða betur.
SKE: Hvernig gengu tökur myndbandsins? Þú hefur væntanlega verið í stífum dansæfingum áður en tökur hófust?
G: Já, ég fór í nokkra tíma með danshöfundi myndbandsins og tókst henni að kenna mér ýmislegt fyrir tökurnar. Svo gerðist það daginn fyrir tökur að ég festist í bakinu og gat varla gengið. Ég átti mjög dramatískt kvöld og grét úr mér augun vegna þess að ég hélt að ég væri búin að eyðileggja komandi tökudag. Ég var sannfærð um að við yrðum að hætta við. Daginn eftir mætti ég til leiks með þrútin augu og ennþá með brjálaða verki í bakinu. Ég átti erfitt með að ganga en ákvað að gera þetta bara og hætta þessu væli. Við límdum hitapoka á bakið á mér—undir fötin—og það hjálpaði töluvert. Svo vildi svo heppilega til að hárgreiðslumaðurinn sem var á settinu er einnig jógakennari. Hann hjálpaði mér að teygja á bakinu á milli atriða. Ég keyrði mig algjörlega áfram á adrenalíninu og gerði mitt besta.
SKE: Útkoman er, að minnsta kosti, mjóg góð … það lag sem hefur haft hvað mestu áhrif á þig og hvers vegna?
G: I Don’t Want to Be með Gavin Degraw er eitt af mínum uppáhalds. Þetta er bara svo mikið badass lag og það lyftir mér upp í hvert einasta skipti sem ég hlusta á það.
SKE: Hvernig er lífið í Lundúnum?
G: Mér líður ofboðslega vel hér í Lundúnum. Ég sakna fjölskyldunnar oft en það er nóg að gera. Allt sem ég er að gera er svo skemmtilegt svo mer tekst oft að týna mér algjörlega í því. Ég er mjög hrifin af þessari borg því hún er svo fjölbreytt. Þar að auki er ég einnig að vinna með svo skemmtilegu fólki, sem er náttúrulega ennþá betra.
SKE: Þú hefur spilað á ófáum tónleikum upp á síðkastið. Hvað hefur staðið upp úr og hvers vegna?
G: Já, ég hef komið reglulega fram upp á síðkastið, sem hefur verið svolítið stressandi því að ég hef ekki verið að koma fram svo lengi. Það er svo gaman að það ný tónlist sé loksins komin út því nú byrja gig-in að aukast og ég get hreinlega ekki beðið; það að koma fram á sviði er skemmtilegasta hliðin á mínu starfi. Um daginn spilaði ég á tónleikum fyrir NME Magazine. Tónleikarnir snérust um konur í tónlist. Það var uppselt á tónleikana og ég fékk svo frábærar viðtökur frá fólki. Ég naut mín vel á sviðinu og þetta var ótrúlega gaman.
SKE: Fylgist þú mikið með tónlistarsenunni á Íslandi og er eitthvað sem þú fílar umfram annað?
G: Ég get ekki sagt að ég hafi fylgst mikið með íslenskri tónlist upp á síðkastið. Ég er sjálfsagt að einblína meira á erlenda tónlist í augnablikinu. Hins vegar býr kærastinn minn enn á Íslandi þannig að ég fæ stundum fréttir frá honum af því hvað er að gerast á Íslandi, sem er bara gaman.
(SKE þakkar Glowie kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að horfa á myndbandið við lagið „Cruel.“)