Fréttir / Viðtöl
Fyrir stuttu hafði orðasambandið „sound asleep“ einvörðungu eina merkingu (á ensku): „að sofa djúpum svefni.“ En nú hefur ungur og frambærilegur íslenskur tónlistarmaður gefið orðasambandinu nýja merkingu. Þegar þessi orð eru rituð, þann 17. maí 2016, þá þýðir frasinn „sound asleep“ ekki einungis það að „sofa djúpum svefni“ heldur einnig „að dreyma tóna, tóna sem verða seinna meir að lagi … (kannski.)“ Þetta er nauðsynleg nýsköpun. Mér finnst alltént líklegra að mig dreymi í kvöld fallega tóna sem verða seinna meir að fullkláruðu lagi heldur en í síðustu viku, áður en þessi nýja merking kom til (værum við jafn dugleg að „twerk-a“ ef það væri ekkert orð yfir það?). En hvað um það. Til þess að tengjast þessari málvísindalegri nýbreytni nánar heyrðum við í listamanninum H. Dór og spurðum hann út í lagið „Sound Asleep“ – og fleira.
Já, góðan daginn. Hvað segir H. Dór gott?
Blessaður! H.dór er eldhress að vanda! Ég sit og horfi yfir Svarfaðardalinn sem skartar sínu fegursta í morgunsólinni.
Þú varst að gefa út lagið Sound Asleep í gær. Hvað geturðu sagt okkur um lagið?
Lagið er búið að velkjast um í mér síðan fyrir nákvæmlega ári síðan. Þó það hljómi klisjukennt þá kom það til mín í draumi. Ég var staddur úti á Sardiníu í sumarfríi og vaknaði eldsnemma um morgun með lagið á heilanum. Flýtti mér að flauta það inn á voice memo í símanum svo það gleymdist ekki og reyndi að vekja ekki kærustuna með þeim tilburðum, sem mér tókst nú samt að gera við lítinn fögnuð! Síðan fór lagið í sinn vanalega prósess, smellti því inn í tölvuna seinna um daginn. Textinn í laginu er ekki flókinn en fjallar um þennan draum: „You just made me dream of this melody / When your sleep has sounds you’re sound sound asleep“
Þetta er jafnframt fyrsta lagið sem fær að njóta raddbanda H. Dór (með aðstoð „vélmenna“) – hvað kemur til?
Það verður að vera eitthvað mennskt í tónlistinni minni, því annars væri hún bara einn stór vélasalur. Já, ætli ég sé ekki bara húsvörðurinn í þeim sal? Held vélunum gangandi og hreyti ókvæðisorðum í þær þegar kælikerfið þeirra bilar!
Er sólóplata með H. Dór væntanleg?
Já, hún mun koma út! Líklegast verður það stuttskífa og annað hvort leyfi ég henni að leka út hægt og rólega, lag fyrir lag, eða tek góðan lokahnykk og þrýsti henni út í einum rykk. Kannski gef ég allt líka út á Betamax spólu? Eða eru vaxhólkar kannski að koma sterkir inn aftur? Það má allavega búast við miklu danseríi og nokkrum instrumental trökkum líka.
Á hvað ertu að hlusta á þessa dagana – og hvað ertu ekki að hlusta á?
Ég er búinn að vera að hlusta á nýjustu Moderat plötuna, sem er mjög næs. Svo hef ég hlustað mikið á Bítlana líka. Tók líka góða rispu og straujaði allan katalóginn hjá Úlfi Úlfi um daginn, en hafði bara heyrt eitt og eitt lag áður. Wickedskengman 4 með Stormzy. Ég veit nú svosem ekki hvað ég er ekki að hlusta á? Ég hlusta á allt.
Þú ert þekktur meðal fastagesta Vesturbæjarlaugar sem H.andlóð. Hvaðan kemur það viðurnefni?
Já, það er rétt. Ég er þekktur þar sem Handlóð Eldjárn enda þykir mér fátt skemmtilegra en að mæta í „gym-ið“ þar sem samanstendur af 5 handlóðum, upphífingastöng og öldrunarhjóli og reyna að gera það besta úr því. Mæli með því fyrir alla sem vilja efla líkamlegt (og andlegt) þrek!
Ef þú yrðir að lýsa sjálfum þér eins og margslungið illmenni í fágaðri vísindaskáldsögu – hvernig myndi sú frásögn hljóða?
„Hann sást aldrei á ferli, enda var hann ætíð sveipaður síðri svartri skikkju og fór með veggjum. Þó virtist hann vera alstaðar, eða taldi fólk sig allavega finna fyrir nærveru hans hvar sem það kom. Með haukfrán augu, vel greitt hár og marðarlegt glott lét hann til skarar skríða þegar þú síst áttir von á því.“
Hvern styður þú til embættis forseta Íslands?
Ég er Andramaður.
Uppáhalds tilvitnun / „one liner“?
„Yeah, well, that’s just like you’re opinion, man.“ — Dude Lebowski
Eitthvað að lokum?
Sjáumst í Vesturbæjarlaug!
Ef þú mætti velja fyrirsögn þessara greinar – hver yrði sú fyrirsögn?
Vaknaði með nýtt lag á heilanum.
Heiðarleg fyrirsögn.
Hér er svo lagið: