Fréttir
„Frá því að ég byrjaði að skapa tónlist hefur náttúran ávallt veitt mér innblástur,“ segir hinn franski Mehdi Benjelloun—betur þekktur sem Petit Biscuit—í myndbandi sem hann birti á Youtube-síðu sinni í gær (5. febrúar).
Benjelloun hefur, ár frá ári, ferðast á milli landa til þess að sækja sér innblástur—en ákvað þó að ganga skrefinu lengra í ár, ef svo mætti að orði komast:
„Ég ákvað að ferðast til Flateyrar, lítils þorps á Vestfjörðum.“
Í fylgd með Benjelloun eru ljósmyndarinn Jonathan Bertin og kvikmyndagerðamaðurinn Baptiste Cornu (sem leikstýrði einmitt ofangreindu myndbandi). Hyggst Benjelloun dvelja á Flateyri í mánuð. Samkvæmt Instagram-reikningi Benjelloun kom hann til Íslands 23. janúar síðastliðinn og fer því væntanlega aftur heim í lok febrúar.
Þess má geta að innan við sólarhringur er liðinn frá því að Benjelloun birti myndræmuna en þegar hafa tæplega 12.000 manns horft á myndbandið. Ásamt því að fara á hestbak stytta félagarnir sér stundir á Íslandi með því að teika jeppa á lítilli snjóþotu í myndbandinu.
Petit Biscuit nýtur mikilla vinsælda á Spotify, meðal annars. Notendur streymiveitunnar hafa t.a.m. hlýtt á lag hans Sunset Lover yfir 300 milljón sinnum. Mælum við þó sérstaklega með flutningi Petit Biscuit og söngkonunnar Bene á laginu Problems í útvarpsþættinum Triple J í Ástralíu (sjá neðst).
Áhugasamir geta fylgst með Petit Biscuit á neðangreindum miðlum:
Vefsíða: https://www.petitbiscuit.fr
Facebook: https://petitbiscu.it/Facebook
Twitter: https://petitbiscu.it/Twitter
Instagram: https://petitbiscu.it/Instagram
Soundcloud: https://petitbiscu.it/Soundcloud
Youtube: https://petitbiscu.it/YouTubeSubscribe