Auglýsing

„Held stundum að ég lifi á Seinfeld settinu.“ – Áskell

Viðburður / Fréttir

Á fimmtudaginn er sumardagurinn fyrsti. Kannski að þú, lesandi góður, trúir því ekki. Kannski að þú horfir út um gluggann og sérð hvernig vindurinn púar hvítum snjó í átt að skjálfandi öspunum, og hvernig grár himininn hvelfist yfir Íslendingum líkt og grámygluleg skikkja dauðans. En trúðu mér – á fimmtudaginn er sumardagurinn fyrsti, og í tilefni þess ætlar hinn geðþekki Áskell að þeyta skífum á Kaffibarnum. Okkur SKE-urum fannst því við hæfi að heyra í Áskeli, sem við gerðum; við blésum til ítarlegrar yfirheyrslu – líkt og að við værum sovésk ríkisstofnum að sinna eftirlitsstörfum. (Við heyrðum í honum í gær, en þá var veðrið talsvert mildara.)

Þú ert meðlimur í DJ samsteypunni BLOKK, ásamt fleirum góðum. Intr0beatz er formlega titlaður sem „munch adviser“ í félaginu, en hver er þinn titill?

Addi Intro ber náttúrulega höfuð og herðar yfir okkur hina þegar kemur að því að þekkja skyndabitaflóru Reykjavíkur inn og út. Þegar við Blokk liðar komum saman þá er það samt ég sem sé um eldamennskuna. Innan Blokk hópsins er ég Chef Kelly, ekki spurning! Draumurinn er náttúrulega að opna litla búllu einn daginn, sem sameinar þessi áhugamál mín, tónlistina og eldamennskuna. Þá gæti ég staðið bæði yfir grillinu og plötuspilurunum til skiptis.

Þú spilar á Kaffibarnum á miðvikudaginn í tilefni sumardagsins fyrsta (sem er á fimmtudaginn). Við hverju má búast?

Nú er veðrið búið að leika við okkur síðustu vikuna og kominn smá sumarspenna í mann. Það skilar sér yfirleitt í því að ég leita í glaðlegra og léttara hús. Meira diskó, minna teknó. Svo er ég búinn að vera grafa upp allskonar gamla húsgullmola sem ég ætla að leyfa njóta sín í bland við framandi nýja tóna og gott grúv.

Uppáhalds drykkur á barnum?

Basil Gimlet framreiddur af Benna á Slippbarnum og góður IPA. Úlfur Úlfur er í sérstöku uppáhaldi núna!

Ertu að vinna með eitthvað sérstakt „klósett“ lag? (þeas lag sem þú setur á til þess að stökkva frá á klósettið?)

Þegar ég er einn að spila í fimm og hálfan klukkutíma eins og gerist um helgar er gott að hafa nokkur löng lög tilbúin fyrir klósettferðirnar (sem mega helst ekki vera fleiri en tvær yfir allt kvöldið, það getur verið hættulegt að hlaupa frá). Yfirleitt þarf ég að tímasetja þetta alveg rétt, þegar allir eru í góðum fíling og taka helst ekki eftir því að maður sé horfinn frá. En lagavalið ræðst í hvert og eitt sinn, bara að lagið sé helst lengra en 6-7 mínútur, ef maður skyldi nú lenda í einhverju veseni…

Fyrir þá sem þekkja ekki til Hús (house) stefnunnar, hvaða lag/lög er best að byrja á til þess að kynnast þessu „genre“?

House stefnan er í rauninni mjög stórt hugtak sem inniheldur fjöldann allan af minni stefnum undir sínum hatti. Það sem sumir meta sem hús meta aðrir sem teknó, eða popp eða diskó o.s.frv. Úrvalið er endalaust af góðri tónlist, en línan getur verið mjög þunn yfir í að vera eitthvað alveg hræðilegt. Fyrir mig var erfiðast að finna út hvar ég ætti að byrja þegar ég var að kynnast húsinu. Þá þurfti ég að reiða mig á reyndari plötusnúða og skoða hvað þeir voru að spila sem ég tengdi virkilega við. En góður maður til að byrja á að kynna sér er Kerri Chandler. Hef ekki ennþá (og mun vonandi aldrei) hitt manneskju sem fílar ekki eitthvað með honum. Lög eins og Rain, Atmosphere og Bar A Thym eru ágætis byrjun.

Hvern styður þú til embættis Forseta Íslands?

Það er kominn tími á breytingu í þessu embætti (sem og í fleiri áhrifastöðum hérna á Íslandi). Ég treysti Andra Snæ Magnasyni fullkomlega til að sinna þessu starfi með sóma!

Á skalanum Irma Grese til Audrey Hepburn, hversu ánægður ertu með lífið á Íslandi?

Ég er þeirrar skoðunar að það skiptir engu máli hvar í heiminum maður sé staddur svo lengi sem maður fái tækifæri til að gera það sem manni finnst skemmtilegt. Ísland er dásamlegur staður núna og ég hef næg tækifæri til að blómstra. Hérna er sena sem fer ört vaxandi, það er úrval af skemmtilegum giggum til að spila, flottum hátíðum og vaxandi fagmennsku í kringum þetta allt saman. Svo að stutta svarið er að Audrey Hepburn.

Ef þú yrðir að lýsa sjálfum þér eins og húsgagni í vönduðum IKEA bæklingi – hvernig myndi sú frásögn hljóða?

Ég er að sjálfsögðu Expedit 2×6 hillan. Svört og sykurlaus, ekki að reyna að vera neitt annað en hún er og er laus við allan óþarfa glamúr. Þú veist nákvæmlega hvar þú hefur hana, bregst ekki í skipulaginu, fer lítið fyrir henni (nema að þú viljir annað) og nýtur sín langbest umvafin græjum. Svo heldur hún utan um allt plötusafnið þitt og varðveitir það nákvæmlega eins og það á skilið.

Ef þú gætir lifað þig inn í einn sjónvarpsþátt, hvaða þáttur yrði fyrir valinu?

Ég held stundum að ég lifi á Seinfeld settinu. Meira að segja vinir mínir klæða sig eins.

Ef þú yrðir að velja á milli Megan Fox og vegan osts – hvert yrði valið?

Þegar Megan Fox kemur að koma borða á framtíðar húskaffihúsinu mínu skal ég sjá til þess að það verði gott úrval af vegan ostum handa henni!

Eitthvað að lokum?

Ég hvet alla til að koma og dansa inní fyrstu sumarnóttina á Kaffibarnum á miðvikudagskvöld. Það er svo hollt fyrir líkama og sál að fara út og sleppa af sér takinu í góðri sveiflu með góðum vinum. Tónlistin verður góð, ég skal lofa því!

Hér er svo Kerri Chandler. Sjáumst annað kvöld!

Auglýsing

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing