Auglýsing

„Hversu margir létu lífið við tónlistina okkar?“ – No Malice ræðir Clipse

Fréttir

Bandaríska hljómsveitin Clipse samanstóð af bræðrunum Gene „No Malice“ Thornton og Terrence „Pusha T“ Thornton og var stofnuð árið 1992. 

Í samstarfi við The Neptunes gaf tvíeykið út fyrstu breiðskífu sína, Exclusive Audio Footage, árið 1996 á vegum plötufyrirtækisins Elektra en þar sem sala plötunnar þótti dræm – sleit plötufyrirtækið samstarfið stuttu síðar. 

Fimm árum seinna rituðu bræðurnir undir annan samning við Pharrell Williams (hinn helmingur tvíeykisins The Neptunes) og útgáfufyrirtækið Arista Records í gegnum dótturfélagið Star Trak. Í kjölfarið sendu Clipse frá sér plötuna Lord Willin’ árið 2002 og slógu í gegn með lögum á borð við Grindin’ og When the Last Time (einnig röppuðu bræðurnir á laginu Like I Love You eftir Justin Timberlake). 

Árið 2006 gaf tvíeykið svo út plötuna Hell Hath No Fury í gegnum plötufyrirtækið Jive Records og árið 2009 kom platan Till the Casket Drops út á vegum útgáfurisans Columbia Records. Plöturnar þóttu ágætlega vel heppnaðar en seldust ekki nærri því jafn vel og önnur breiðskífa sveitarinnar, Lord Willin’. 

Eftir útgáfu plötunnar Till the Casket Drops dró rapparinn No Malice sig í hlé á meðan bróðir hans, Pusha T, ritaði undir nýjan samning við Kanye West og plötufyrirtækið G.O.O.D. Music. Í kjölfarið létu margir aðdáendur Clipse sér dreyma um endurkomu tvíeykisins en ekkert hefur bólað á þeim endurfundi síðastliðin átta ár. 

Í gær birti Youtube rásin VladTV fimmta hluta viðtals síns við No Malice þar sem rapparinn lítur yfir farinn veg og svarar mörgum þeim spurningum sem eflaust hafa brunnið á aðdáendum sveitarinnar síðastliðin misseri. 

Margt áhugavert kemur fram í viðtalinu en spyrillinn forvitnast meðal annars um ákvörðun No Malice að hætta í hljómsveitinni og hvort að hún hafi ekki komið sér illa fyrir bróður sinn:

„Jú, en það fer eftir því hvernig þú hagar lífinu þínu; ég lifi ekki fyrir tónlistarbransann, ég lifi fyrir sjálfan mig … bróðir minn er braskari („hustler“) og ef þú veist það ekki nú þegar þá geturðu einfaldlega hlýtt á textann hans í hverju lagi sem hann gefur út. Við erum ekki síamstvíburar fastir saman á mjöðm. Við erum einstaklingar! Og það er lífið. Það á enginn að þurfa að vera háður lífi annars manns … ég verð að lifa fyrir sjálfan mig.“

– Malice

Í viðtalinu kemur einnig fram að No Malice hafi fundið trúna á ný og í kjölfarið hafi hann ákveðið að breyta nafni sínu úr Malice („Illkvitni“ á ensku) yfir í No Malice („Engin illkvittni“). Aðspurður hvers vegna lét hann eftirfarandi ummæli falla:

„Við verðum það sem við erum stimplaðir … þú gætir litið á þetta sem hluta af skemmtanabransanum og reynt að réttlæta þessa hluti fyrir þér en sumir hlutir byrja að loða við þig. Ef þú talar stöðugt um fíkniefni á plötunni þinni þá gætirðu verið kærður einn daginn … þetta er þessi sígilda spurning: hermir listin eftir lífinu eða öfugt? … í dag er ekkert illkvittið í fari mínu.“

– No Malice

Í lok viðtalsins segir spyrillinn að hann hafi nýverið rætt við rapparann Money-B sem var góðvinur rapparans Tupac Shakur heitins. Vitnar spyrillinn í orð Money-B þess efnis að Tupac hafi oft og tíðum talað um fangelsi, skotárásir eða dauðann og að lokum hafi þetta allt saman orðið að raunveruleika. No Malice brást við þessari tengingu með eftirfarandi orðum:

„Ég trúi því að við getum kallað dauðann yfir okkur á sama veg og við getum kallað lífið yfir okkur … ef þú pælir í því sem ég hef sagt í fortíðinni; geturðu ímyndað þér hversu margir fóru í fangelsi vegna orða minna? … Ímyndaðu þér hversu oft lögreglan stöðvaði einstaklinga sem voru að hlusta á plötuna mína í bílnum og fór síðan með þá í fangelsi? Ímyndaðu þér hversu oft einhver var skotinn í hausinn á (meðan platan mín var í spilun) … ég er ekki að gagnrýna rapptónlist, þetta er bara sannleikurinn.“

– No Malice

Að lokum má þess geta að No Malice gaf út plötuna Let the Dead Bury the Dead í ágúst en hér fyrir neðan geta lesendur horft á myndbandið við lagið So Woke sem er að finna á plötunni (enn er ekkert útlit fyrir endurkomu Clipse).

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing