Erlent
Eins og fram hefur komið í íslenskum fjölmiðlum undanfarna daga fer tónlistarmaðurinn Eðvarð Egilsson með aðalhlutverkið í nýju tónlistarmyndbandi bandarísku söngkonunnar Lönu Del Rey en myndbandið rataði loks á Youtube í dag (13. september). Um ræðir myndband við lagið White Mustang – og þegar hafa notendur Youtube horft á myndbandið tæplega 500.000 sinnum.
Í grein sem birtist á Mbl.is í gær kom fram að Eðvarð hefur verið búsettur í Los Angeles síðastliðin átta ár þar sem hann hefur „sinnt leikstörfum og tónsmíðum ásamt því að sitja fyrir í auglýsingum. Þá hefur einnig hann leikið í tónlistarmyndböndum fyrir Katy Perry og Havönu Brown.“ (MBL) Þó er þetta eitt stærsta verkefni sem hann hefur fengið hingað til:
„Ég hef verið í þessu í einhvern tíma en þetta er eitt stærsta verkefni sem ég hef fengið … Þetta byrjaði með því að vinkona þekkir konu sem velur í hlutverkin og taggaði mig á Facebook þar sem óskað var eftir ákveðinni týpu, stráki með sítt hár og skegg, fyrir tónlistamyndaband.“
– Eðvarð Egilsson (MBL)
Áhugasamir geta lesið fyrrnefnda grein frá Mbl.is með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.