Fréttamennirnir Mark Arum og Fred Blankenship frá Atlanta í Bandaríkjunum vottuðu
rapparanum Prodigy úr tvíeykinu Mobb Deep virðingu sína í gær þegar þeir laumuðu þekktum
línum eftir rapparann inn í umferðarfréttir stöðvarinnar WSB TV (sjá hér fyrir ofan) en
Prodigy lést síðastliðinn þriðjudag (20. júní).
Ekki er þetta í fyrsta skiptið sem Arum og Blankenship heiðra minningu látinna rappara en áður fyrr hafa þeir kastað kveðjum á Biggie Smalls, Phife Dawg og Tupac með sambærilegum hætti.
Á rúmlega einni mínútu tekst þeim að lauma að minnsta kosti 10 þekktum textabrotum frá Mobb Deep inn í þáttinn og gera þeir það jafnframt á svo lúmskan hátt að þeir áhorfendur sem þekkja ekki til Mobb Deep taka eflaust ekki eftir neinu:
“There are a lot of folks pushing Lexuses, wearing fat diamond rings.” tilvísun í lagið „Drink Away the Pain (Situations)“ eftir Mobb Deep
– Mark Arum
Prodigy fæddist árið 1974 og stofnaði hann tvíeykið Mobb Deep með félaga sínum Kejuan Muchita (betur þekktur sem Havoc) snemma á tíunda áratugnum. Gáfu þeir út sína fyrstu plötu Juvenile Hell árið 1993 og fylgdu plötunni svo eftir með þremur hljóðversplötum í viðbót fyrir lok aldarinnar. Héldu þeir félagar áfram að túra og gefa út tónlist saman á nýrri öld en síðasta plata Mobb Deep, The Infamous Mobb Deep, kom út árið 2014.
Á ferli sínum gaf sveitin út fjölmörg sígild lög þar á meðal Shook Ones, Survival of the Fittest og Quiet Storm.