Fréttir
Í nýjasta þætti bandaríska fréttaskýringaþáttarins 60 Minutes ræðir blaðamaðurinn Anderson Cooper við bandarísku þingkonuna og demókratann Alexandria Ocasio-Cortez (sjá myndbrot hér að ofan).
Ocasio-Cortez—sem er yngsta þingkona í sögu Bandaríkjanna (hún fæddist þann 13. október 1989 og er því aðeins 29 ára gömul)—tók sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í byrjun janúar. Hafði hún betur gegn repúblikananum Anthony Pappas í New York-ríki í þingkosningunum síðastliðinn nóvember.
Nánar: https://www.mbl.is/frettir/erl…
Líkt og fram kemur í viðtalinu hafa fáir þingmenn vakið jafn mikla athygli og Ocasio-Cortez. Ásamt því að vera lýðræðissinnaður sosíalisti—líkt og flokksbróðir hennar, Bernie Sanders—hefur hún einnig beitt sér í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Aðspurð hvers vegna hún væri svona fámál í garð forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, svaraði Ocasio-Cortez að ástæðan væri sú að hann væri afleiðing stærra vandamáls („a symptom of a problem“)—en ekki vandamálið sjálft. Í kjölfarið var hún spurð hvort að Donald Trump væri rasisti, en viðbrögð hennar hafa vakið mikla athygli:
„Já, engin spurning … þú þarft bara að rýna í orðræðu hans … eða viðbrögð hans við mótmælunum í Charlottesville, þar sem ung kona var myrt af nýnasistum. Berðu þetta saman við hvernig hann diktar upp krísur, t.d. hvað innflytjendur varðar. Þetta er svart og hvítt.“
– Alexandria Ocasio-Cortez
Áhugasamir geta horft á viðtalið í heild sinni hér að neðan.